Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:14:06 (2312)

1998-12-15 15:14:06# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:14]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir viðurkennir það hér að þetta hafi verið ein af þeim leiðum sem 1. minni hluti benti á, að fella út aðgengisnefndina. Mér hefur heyrst að 1. minni hluti sé á hraðri leið frá þessu frv., sé að hlaupast frá því. Hins vegar er ekki rétt að hér sé um grundvallarbreytingu að ræða varðandi samkeyrslu á erfðafræðiupplýsingum. Þetta er tæknileg útfærsla og tölvunefnd á að setja skilyrði varðandi samkeyrslu þessara upplýsinga. Tölvunefnd hefur allar heimildir til að setja þau skilyrði sem hún vill til þess að tryggja persónuverndina.

Í fskj. Stika með frv. kemur kom aftur á móti fram að í miðlægum gagnagrunni séu heilsufarsgrunnurinn, ættfræðigrunnurinn og erfðafræðigrunnurinn. Við tökum hins vegar af öll tvímæli um það að í þessum gagnagrunni, miðlæga gagnagrunninum, séu einungis heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám. Setja á sérstakar reglur um samkeyrslu við ættfræðigrunn og erfðafræðigrunn. Þegar við tókum málið út úr heilbr.- og trn., varðandi ættfræðiupplýsingarnar, þá mótmælti minni hlutinn ekki.