Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:18:09 (2315)

1998-12-15 15:18:09# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef mikið álit á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur en ég get sagt herra forseta það og þingheimi að ég hef meira álit á Rannsóknarráði Íslands til að leggja mat á aðgengi vísindamanna út frá þessu frv. Ég treysti Rannsóknarráði Íslands betur til að leggja á þetta mat en hv. þm. og ekki þarf að hafa mörg orð um það hvað stendur í brtt. Það er farið með þetta inn í nefndina, ekkert er sagt um hvað er ef samningar nást ekki. Það er alveg augljóst þegar þessi texti er lesinn að það er enn erfiðara fyrir vísindamenn að komast að þessum gagnagrunni. Ég vil benda hv. þm. á að minni hluti heilbr.- og trn. stakk upp á tveimur leiðum en lagði ekki fram tillögu vegna þess að minni hlutinn lagði fram sáttaboð í þessum efnum og vildi vinna að þessu máli ásamt meiri hlutanum og vísindasamfélaginu að finna bestu lausnina. Ekki var gefinn kostur á því, herra forseti. Ekki var gefinn kostur á að útfæra leiðina sem er aðalatriðið að aðgengi vísindamanna yrði auðveldað og nú er Rannsóknarráð Íslands búið að segja upp stuðningi við málið. Þetta er grafalvarlegt, og það að segja að Rannsóknarráð misskilji málið er fyrir neðan allar hellur, herra forseti.