Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:23:21 (2319)

1998-12-15 15:23:21# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Með fullri virðingu fyrir persónuvernd og þeim miklu umræðum sem um það hafa orðið snýst þetta mál um miklu meira. Við getum verið að keyra saman upplýsingar um ákveðna sjúkdóma sem einkenna heilu ættirnar án þess að nokkuð sé um það að ræða að geta greint einstaklinga. Kveðið er á um forspár í þessu frv. og það getur snúist um hvort rétt sé að keyra út upplýsingar sem varða forspár um t.d., svo ég vitni nú í einn lækni sem ég hef talað við, um Alzheimer eða aðra slíka sjúkdóma. Þarf leyfi tölvunefndar í hvert sinn eða ekki? Ég get ekki séð að þær brtt. sem eru til umræðu eða reglugerð um aðgangstakmarkanir tryggi þetta sem mér finnst vera grundvallaratriði.