Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:10:02 (2326)

1998-12-15 16:10:02# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Í andsvari við hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur vildi ég inna hana eftir því hvort hún hafi hér áðan lýst því yfir að hún teldi að ekki koma til greina að keyra saman erfðaupplýsingar annars vegar og heilsufarsupplýsingar hins vegar. Ég hefði viljað fá staðfestingu á því hvort hún er því mótfallin að keyrðar séu saman erfðaupplýsingar og aðrar heilsufarsupplýsingar almennt.

Þá vildi ég einnig spyrja hana hvort hún gerði sér grein fyrir því að slík samkeyrsla hefur átt sér stað. Gerir hún sér ekki grein fyrir því? Hafi slík samkeyrsla átt sér stað, fyrst þingmaðurinn veltir vöngum yfir því hvort lagastoð sé fyrir slíkri samkeyrslu, þá hefði ég viljað spyrja hana hvar hún hafi séð lagastoð fyrir þeirri samkeyrslu sem þegar hefur átt sér stað. Ég held að gagnlegt væri fyrir þingið að fá upplýsingar um þessi þrjú atriði.

Í öðru lagi liggur ljóst fyrir, og ég vona að þingmaðurinn átti sig á því, að eins og frv. hefur legið fyrir þá munu erfðaupplýsingar ganga inn í þennan miðlæga grunn. Um það er ekki deilt. Hér er ekki um að ræða stöðugan grunn sem ekki breytist heldur breytilega grunn, dýnamískan grunn. Þó að nú sé tiltölulega lítið af erfðafræðilegum upplýsingum þá er fyrirsjáanlegt að auknar upplýsingar af erfðafræðilegum toga muni finna sér leið í gegnum sjúkraskýrslur inn í grunninn. Því er afar mikilvægt að menn geri grein fyrir því hvort þeir eru í grundvallaratriðum á móti því að erfðafræðilegar upplýsingar finni sér farveg inn í þennan grunn. Þá finnst mér að menn ættu að vera sjálfum sér samkvæmir og flytja hér brtt. um að slíkt sé ekki heimilt.