Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:14:49 (2329)

1998-12-15 16:14:49# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég harma að hv. þm. Tómas Ingi Olrich hafi ekki áttað sig á afstöðu minni til þessarar grundvallarhugmyndar. Ég hélt að hún lægi nú öllum ljós fyrir. Ég efast stórlega um það að rétt sé að heimila samkeyrslu þessara þriggja þátta, herra forseti. Ég efast stórlega um að æskilegt sé að gera það.

En látum vera, ef það yrði gert með samþykki tölvunefndar í hvert og eitt einasta skipti, þá væri hugsanlega eðlilegt að gera slíkt. Með því vinnuferli sem hér er talað um, endalausum undanþágum frá hinum almennu reglum, þá tel ég það algjörlega óeðlilegt, herra forseti.