Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:15:32 (2330)

1998-12-15 16:15:32# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka fá að nota þetta tækifæri í andsvari til þess að spyrja hv. þm. út í fullyrðingar hennar. Í fyrsta lagi um fyrri brtt. meiri hlutans, sem liggja fyrir milli 2. og 3. umr., hvort þær hafi ekki einmitt verið ræddar í heilbr.- og trn., sérstaklega tvær tillögur sem voru lagðar fram af sérfræðingum heilbrrn. og ræddar áður en málið var afgreitt til 2. umr. í þinginu undir því fororði að þetta þyrfti að laga milli 2. og 3. umr. Er þetta ekki rétt? (Gripið fram í.) Já, og í því sambandi að rifja upp ummæli Davíðs Þórs Björgvinssonar um álit Lagastofnunar. Þessi brtt. var ein af þeim hugmyndum sem þeim fannst koma til greina að setja fram til lausnar málinu. Ég vil bara fá þetta staðfest, virðulegi þingmaður.

Virðulegi forseti. Einnig vil ég fá staðfest hvort ekki sé rétt að þetta hafi verið rætt á fundum nefndarinnar.

Í öðru lagi var vitnað til orða tölvunefndar hér í nál., meira að segja innan gæsalappa, án þess að það sé upplýst hver það er. Fyrst minni hlutinn kýs að vitna til orða og ummæla af fundum nefndarinnar á þennan hátt spyr ég hvort ekki hafi verið rétt að fulltrúi tölvunefndar hafi sagt á fundi nefndarinnar milli 2. og 3. umr.: Það er hægt að samkeyra þessa grunna undir reglum um persónuvernd.

Er þetta ekki rétt?