Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:19:15 (2333)

1998-12-15 16:19:15# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:19]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar þá brtt., sem hv. þm. er að vísa til varðandi aðgengisnefndina, þá hélt ég að ég hefði tekið það fram skýrt í máli mínu að ég a.m.k. met það svo fyrir mína parta að þarna sé komið til móts við gagnrýnina á það að þetta brjóti samkeppnisreglur EES-samningsins en það breytir ekki því, herra forseti, að full ástæða er til þess að fá menn til að skoða það mál, fá m.a. Samkeppnisstofnun til þess að gefa álit sitt á þessum breytingum, að ég ekki tali um þá vísindamenn sem höfðu óskað eftir því að koma á fund nefndarinnar, læknar og aðrir, vegna þess að vitað var, herra forseti, að þessi breyting mundi hafa í för með sér töluvert mikla gagnrýni líka. Þó að hún kæmi til móts við einn þátt þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á frv. mundi hún fela í sér líka þann ótta á meðal vísindamanna að aðgengi þeirra væri enn takmarkaðra en það var áður.

Þetta er ljóst í huga mínum, herra forseti, en það breytir ekki því að meiri hlutinn gat ekki tekið þá tillögu eins og hún lá fyrir og lagt hana hér fram og vænt síðan fólk um það að búið hafi verið að samþykkja hana fyrir fram. Ég tel það algjörlega fráleitt. Og önnur vinnubrögð meiri hlutans, m.a. að leyfa ekki fólki að koma fyrir nefndina og tjá sig um málið, eru algjörlega fráleit. Ég hef ekki enn þá fengið skýringu á því, herra forseti, af hverju í ósköpunum mátti ekki funda um helgina og fram á mánudaginn um málið. Hvað lá á?