Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:23:14 (2335)

1998-12-15 16:23:14# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:23]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að enginn ætli minni hluta heilbr.- og trn. að lesa upp allt sem fram hefur komið, alla þá gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frv., hvort sem það hefur verið í máli manna eða í riti. Vegna þess að þá stæði ég hér í nokkra daga, herra forseti, og ég ætla engum svo illt að fara að rekja alla þá gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frv.

Auðvitað er það alltaf þannig þegar tilvitnanir eru teknar inn í mál að þá má eflaust benda á hlutina í einhverju öðru samhengi. Það kýs hv. frsm. meiri hlutans að gera um þessi orð talsmanna tölvunefndar. En ég hef skilið tölvunefnd þannig, bæði í umsögn hennar og þegar hún hefur komið fyrir nefndina að hún a.m.k. sjái ákveðin tormerki á því að framkvæma þessa hluti. Tölvunefnd hefur hins vegar aldrei hafnað því að hún muni ganga í það verk verði henni falið það með lögum. Að sjálfsögðu ekki. Enda er það skylda hennar að fara að lögum. Samt sem áður hefur tölvunefnd líka lýst því yfir að hún telji þarna vera um persónugreinanlegar upplýsingar að ræða og mundi vilja nálgast málið á þann hátt. Á það hefur hæstv. meiri hluti í heilbr.- og trn. ekki hlustað þó að það hafi verið hlustað á aðra sem hafa kannski lagt inn orð í umræðuna.

Þetta með væntanlegan starfsleyfishafa. Eflaust hafa fleiri notað þetta hugtak. En það er hins vegar svo að þegar framsögumaður meiri hlutans, sem er að kynna þetta mál og leggja það fram hér, viðurkennir það nánast með orðbragði sínu og líka með því þegar hún er að rökstyðja það út af hverju menn eigi að koma fyrir nefndina, að eðlilegt sé að fulltrúar eða væntanlegur starfsleyfishafi komi fyrir nefndina þá er það til að staðfesta þá gagnrýni sem minni hlutinn hefur verið að leggja fram. Að verið sé að vinna þetta mál í þágu ákveðins, væntanlegs starfsleyfishafa, ónefnds fyrirtækis hér í borg.

Þess vegna höfum við haldið því fram að um sé að ræða ákveðinn og mikinn þrýsting að utan, utan þings, í þessu máli. Það er a.m.k. ljóst samkvæmt rauðu reitunum á blaðinu sem ég sýndi hér áðan að það eru ekki andstæðingar þessa frv. sem hafa fengið mikinn hljómgrunn hjá ríkisstjórninni.