Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:55:54 (2340)

1998-12-15 16:55:54# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Hera forseti. Það hversu margir tóku til máls við umræðuna síðast sýnir bara að verulega margt var athugavert við þingmálið. Í þeirri umræðu var því einnig lýst yfir að málið væri í vinnslu og talað um að það yrði unnið frekar milli 2. og 3. umr. Það var ekki gert. Menn voru ekki tilbúnir að vinna það frekar nema að því litla leyti sem meiri hlutinn vildi. Þeir voru ekki einu sinni tilbúnir að hlusta á þá sem vildu gera athugasemdir.

Hv. þm. spyr til hverra hefði átt að leita álits. Í máli mínu hefur margoft komið fram að ég hefði talið ástæðu til að leita til Eftirlitsstofnunar EFTA um þetta mál. Við teljum að þetta brjóti í bága við EES-reglur og tilskipanir og að full ástæða hefði verið til að skoða það. Einnig bentum við á að ástæða hefði verið til að tala við Björn Friðfinnsson, sérstakan sérfræðing ríkisstjórnarinnar um málefni sem snúa að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég er ekki að segja að það eigi alltaf að leita til útlanda. Þegar það er álitamál hvort málið standist skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur í sambandi við erlenda samninga þá eigum við vissulega að leita þangað. Ég benti á að í grein í Morgunblaðinu á sunnudaginn telur virtur lögfræðingur að vissulega hefði verið ástæða til þess að leita umsagnar erlendra aðila um málið.

Jafnframt hefur verið bent á að þetta standist ekki stjórnarksrána og hefði líka verið ástæða til að leita álits á því.

Það að málið hafi verið mikið rætt hér í þingsal bendir til þess að menn hafi gert margar athugasemdir. Ég vil bara minna á að mjög fáir fulltrúar heilbr.- og trn., úr stjórnarmeirihlutanum, tóku til máls í umræðunni. Þó þeir komi hér aðeins í andsvör voru þeir ekki mikið að ræða málið í þingsalnum nema einn og einn.