Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 19:01:13 (2355)

1998-12-15 19:01:13# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[19:01]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kemur fram mikil glöggskyggni af hálfu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að ég hafi svona sitthvað við þetta frv. að athuga.

Hér kom fram og var staðfest að þeir vísindamenn sem eru ekki veitendur inn í grunninn eða í samstarfi við slíka standa illa að vígi eða þeir eru þá eins og hverjir aðrir viðskiptaaðilar nema íslenska ríkið niðurgreiði þá á einhvern hátt. En við höfum þó eitt haldreipi, segir hv. þm. Væntanlegur sérleyfishafi er mjög jákvæður í garð íslenskra vísindamanna og mun að öllum líkindum taka vel í að semja við þá.

Hvers konar afstaða er þetta eiginlega? (SF: Margoft komið fram í heilbrn.) Margoft komið fram í heilbrn. að væntanlegur sérleyfishafi sé svo jákvæður í garð Íslendinga að hann ætli að veita þeim einhvern aðgang að vísindastarfsemi og vísindarannsóknum.

Síðan var vísað í einhver minnihlutaálit út og suður. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er að eiga orðastað við einn af aðstandendum þáltill. um dreifða gagnagrunna, sem hefur ekki fengist rædd í þinginu nema við 1. umr., og einn af aðstandendum frávísunartilögu á þessu frv. á þeirri forsendu að það væri ekki þingtækt, að það væri ekki hæft til afgreiðslu frá þinginu vegna þess að það er óásættanlegt hvernig sem á málið er litið. Rök hafa verið færð fyrir þessu, ég hef gert það, vísindamenn, samtök sjúklinga og læknar hafa fært rök fyrir þessu í blaðagreinum, ályktunum, yfirlýsingum. En ekkert hrín á ríkisstjórninni sem gengur hér erinda eins fyrirtækis.