Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:10:10 (2365)

1998-12-15 21:10:10# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:10]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það stendur ekki til í sambandi við það frv. sem hér er til umræðu að samkeyra við miðlægan gagnagrunn grunna sem efnt hefur verið til með rannsóknum á fólki og með upplýstu samþykki. Það stendur ekki til og hefur aldrei staðið til (Gripið fram í.) að samkeyra slíka grunna við þessar upplýsingar öðruvísi en fullkomið umboð sé í hinu upplýsta samþykki til þess. (HG: Hvernig á að afla þess?) Hvernig á að afla þess? Það er bara gert nákvæmlega eins og í þeim rannsóknum sem hingað til hafa verið gerðar. Hv. þm. hristir höfuðið og þá spyr ég: Hvaðan hefur hann þær upplýsingar að ekki standi til afla upplýsts samþykkis til allrar slíkrar samkeyrslu? Hann hefur þá a.m.k. meiri skyggnigáfu en ég. (Gripið fram í: Hver á að fylgjast með þeim?) Það er spurt utan úr sal: ,,Hver á að fylgjast með þeim?`` Þeim hverjum? (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er það fólgið í því að tölvunefnd hefur eftirlit með þessu og fylgir því eftir að staðið sé við allar reglur.