Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:17:08 (2369)

1998-12-15 21:17:08# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:17]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Miklir menn erum við nú, við formaður heilbr.- og trn. Hann telur að runnið hafi upp ljós fyrir þeim sem hér stendur þegar hann hlustaði á skýringar hv. þm. á því hvað stæði í frv. Það er öllu nær að segja að ég hafi við 2. umr. málsins vitnað í 3. gr. frv. til að sýna honum fram á að það væri ekki hægt á þessu stigi málsins að takmarka upplýsingarnar við upplýsingar úr sjúkraskrám. Nú hefur verið tekinn af allur vafi um það og ég stend í þeirri meiningu núna að þetta sé tryggt, enda kemur það fram á pósitífan hátt.

Að því er varðar þá fullyrðingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að sá sem hér stendur gegni einhverju forustuhlutverki í nefndinni, þá er það hinn mesti misskilningur. (ÖS: Er það ekki jákvætt?) Það er mesti misskilningur. Hér er aðeins um að ræða auðmjúkan varamann í heilbr.- og trn. sem vill að sjálfsögðu þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að vinna með hv. formanni.