Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:18:34 (2370)

1998-12-15 21:18:34# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SP
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:18]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Það er búið að ræða það frv. sem hér er til umræðu mjög ítarlega á hinu háa Alþingi. Nú hefur 3. umr. um málið staðið í allan dag og enn eru átta hv. þm. á mælendaskrá að því er ég best veit. Mig langaði til þess að víkja nokkuð að ákveðnum atriðum í þessu sambandi. Fyrst vil ég líta á nefndarálit minni hlutans og síðan kanna frekar umsagnir með frv., fara nokkuð út í erfðafræði og hlutverk tölvunefndar.

Í frhnál. minni hlutans segir að um grundvallarbreytingar á frv. sé að ræða. Þessu hefur ítrekað verið mótmælt í umræðum á þinginu í dag. Orðrétt segir, með leyfi virðulegs forseta, á bls. 3 í frhnál. minni hlutans:

,,Öll umræða um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði hefur síðustu mánuði farið fram á grundvelli upphaflegrar gerðar frumvarpsins og þar með verið gert ráð fyrir að erfðafræðiupplýsingar, sem ekki eru í sjúkraskrám, væru ekki hluti grunnsins. Því er ljóst að með tillögu sinni um gjörbreytta meðferð erfðaupplýsinga er ríkisstjórnin uppvís að því að hafa blekkt bæði þingið og vísindasamfélagið.``

Þetta eru stór orð og því finnst mér rétt að ræða þau frekar. Ég vil enn fremur fá að vitna til annars sem segir í þessu nefndaráliti, með leyfi virðulegs forseta:

,,Í ljósi þess að breytingum á frumvarpinu er stjórnað utan þingsins og með hliðsjón af þeim gerræðislegu vinnubrögðum sem hér er lýst og fela í sér að Alþingi er svipt hinum lýðræðislega rétti til að vinna málið faglega er ljóst að meiri hlutinn hefur eyðilagt alla möguleika á lágmarkssamstöðu um málið.``

Virðulegi forseti. Ég lýsi furðu minni á þessum orðum og hef vakið athygli á því í dag ásamt fleiri þingmönnum stjórnarmeirihlutans að þetta er alrangt. Ég tel að þetta mál hafi fengið þannig meðferð í þinginu að erfitt sé að finna hliðstæðu þess. Tugir umsagna hafa borist, tugir gesta hafa mætt. Málið var lagt fyrir síðasta vor. Það tók miklum breytingum í sumar m.a. eftir ábendingu frá tölvunefnd og það kom í haust inn í heilbr.- og trn. og hefur verið rætt þar á fjöldamörgum fundum.

Þar að auki gat ég þess í dag í umræðunni að mjög margir hv. þm. hafa komið að því að ræða þetta mál. Þannig töluðu 17 ræðumenn við 1. umr. málsins og 26 ræðumenn, hvorki meira né minna, við 2. umr. þess. Samtals hefur verið rætt um þetta mál á hinu háa Alþingi í 1. og 2. umr. í 39 klukkustundir. (JóhS: Hvað margar mínútur?) Þetta er fyrir utan þá umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag og væntanlega mun standa allnokkru lengur.

Í Morgunblaðinu í morgun, það hefur verið nokkuð vitnað til þess blaðs í þessari umræðu, er einmitt fjallað um frv. eins og það kemur til 3. umr. Þar er m.a. rætt við Högna Óskarsson lækni, sem er ráðgjafi Íslenskrar erfðagreiningar í gagnagrunnsmálinu. Hann segir aðspurður um þann þátt sem snýr að erfðaupplýsingum og ættfræðigrunnum, með leyfi virðulegs forseta:

,,Andstæðingar frumvarpsins hafa haldið því fram að hugmyndin um erfðafræðiupplýsingar sé alveg ný af nálinni og gjörbreyti eðli málsins, en þetta er ekki rétt því í allri umræðunni eins og hún hefur verið hérna allt síðasta ár og í umsögnunum sem komu inn frá fjölmörgum aðilum í haust er alltaf gengið út frá því að erfðafræðiupplýsingarnar séu með í spilinu.`` --- Og það er einmitt þetta atriði sem ég vil taka fyrir.

Virðulegi forseti. Ég ætla að vitna í allmargar umsagnir sem einmitt fjalla um þetta mál. Spurt hefur verið hvort gert væri ráð fyrir því að erfðafræðiupplýsingar væru inni í miðlægum gagnagrunni eða að þær væru tengdar við heilsufarsupplýsingar. Þess vegna vil ég byrja á að vitna fyrst í umsögn frá Félagi ísl. hjúkrunarfræðinga um frv. Þar segir:

,,Þrátt fyrir ákvæði frumvarpsins til tryggingar persónuverndar er ekki hægt að fullyrða að hún sé fulltryggð, sérstaklega þegar ættfræði- og erfðafræðilegar upplýsingar eru settar saman við heilsufarsupplýsingar m.a. með tilliti til skilgreiningar á hugtakinu persónuupplýsingar í 3. gr. frv.``

Í umsögn frá erfðafræðinefnd Háskóla Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Dulkóðun kennitölu er og gagnslítil þegar miklar heilsufars-, erfða- og ættfræðiupplýsingar liggja fyrir um sömu einstaklinga í sama gagnagrunni.``

Í umsögn frá Geðverndarfélagi Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Í hinum ætlaða miðlæga gagnagrunni verða ekki eingöngu heilsufarsupplýsingar heldur einnig samtengjanlegur grunnur með ættfræðiupplýsingum og einnig verða þar lífsýni og erfðaefni landsmanna.``

Í umsögn Krabbameinsfélagsins segir, með leyfi forseta:

,,Vegna eðlis þeirra upplýsinga sem í gagnagrunninn eiga að fara og þeirra rannsókna sem þarf til að afla þeirra (t.d. erfðafræðilegar upplýsingar) hefði verið nauðsynlegt að kynna samtímis frumvarp til laga um lífsýni.``

Í umsögn miðstöðvar um erfðafræði við Háskóla Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Þær [þ.e. niðurstöður erfðarannsókna] geta einnig leitt til hagsbóta fyrír einstaklinga, ættingja þeirra og aðra með tiltekinn erfðasjúkdóm.``

Siðaráð landlæknis segir, með leyfi forseta:

,,Jafnframt eru líkur á því að hægt verði að auðkenna einstaklinga eftir heilsufarsupplýsingum, ekki síst þegar þær hafa verið tengdar upplýsingum um erfðir og ættfræði eins og hugmyndin er.``

Siðfræðistofnun segir, með leyfi forseta:

,,Enn fremur er ekki ljóst hvort rekstrarleyfishafa verða sett einhver mörk varðandi samkeyrslu gagnagrunnsins við aðra gagnabanka. Þetta virðist gefa til kynna að frumvarpið gefi rekstrarleyfishafa frjálsar hendur hvað þessi atriði varðar,`` --- og þetta eru einmitt atriði sem við höfum tekið á.

Síðar segir í umsögn frá sömu stofnun:

,,Þau litlu skilyrði sem sett eru í frumvarpinu fyrir samkeyrslu annarra gagnabanka við miðlægan gagnagrunn eru í algjöru ósamræmi við þessa meginhugsun. Þetta vekur meðal annars þá spurningu hvaða fordæmisgildi slíkt fyrirkomulag muni hafa. Ef leyfilegt verður án strangs eftirlits að samkeyra heilbrigðisupplýsingar --- upplýsingar sem eru í flokki þeirra viðkvæmustu sem til eru um einstaklinga --- við ýmsa aðra gagnabanka hvaða áhrif mun það hafa á lög um persónuleynd á öðrum sviðum, t.d. um bankaleynd?``

Og áfram er fjallað um sama efni. En þetta eru einmitt atriði sem við teljum okkur taka á í frhnál. okkar.

Þá kemur að álitsgerð meiri hluta nefndar læknadeildar Háskóla Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Rannsóknir starfsleyfishafa, þar með talin víðtæk samtenging heilsufarsgagna, ættartengsla og sameindaerfðaupplýsinga yrðu undanskildar mati vísindasiðanefndar og annarra lögbundinna eftirlitsaðila, svo sem tölvunefndar.``

Seinna segir í umsögninni:

,,Í miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði mundi fara fram úrvinnsla, þar með talin samtenging heilsufarsgagna, ættartengsla og sameindaerfðaupplýsinga.``

III. kafli í umsögn vísindasiðanefndar heitir ,,Heilsufars- og erfðaupplýsingar eru persónugreinanlegar.``

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að nefna til þessi dæmi úr umsögnum sem hv. heilbr.- og trn. fór yfir í þessu máli til þess að sýna fram á að þessi umræða er alls ekki ný af nálinni.

Um það var rætt í dag, hv. þm. Ögmundur Jónasson vék m.a. að því, hvaða þýðingu þátttaka í vísindarannsóknum hefði. Ég vil taka fram að þegar talað er um þátttöku í vísindarannsókn er átt við beina þátttöku, þ.e. sjúkingur gefur sjálfur upplýsingar, gefur lífsýni eða gengst undir rannsókn. Til þess þarf upplýst samþykki sjúklings. Hins vegar er heimilt að leyfa aðgang að upplýsingum sem skráðar voru í öðrum tilgangi til vísindarannsókna án samþykkis þess sem upplýsingarnar stafa frá.

[21:30]

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til þess að fara nokkrum orðum um erfðafræðirannsóknir og hvernig þær fara fram eftir því sem ég fæ best skilið. Reyndar skilst mér að í sumum löndum hafi verið rætt um löggjöf þess efnis að ekki megi mismuna mönnum eftir erfðaefni, en almennt er þó vafalaust talið að stjórnarskráin komi í veg fyrir slíka mismunun. Markmið sameindaerfðafræðirannsókna er m.a. að leita að orsökum sjúkdóma með því að einangra meingen þeirra. Slíkar rannsóknir styðjast við þríþættar upplýsingar. Í fyrsta lagi heilsufarsupplýsingar, þ.e. upplýsingar um sjúkdómsgreiningu viðkomandi einstaklinga. Í öðru lagi er nauðsynlegt að kanna innbyrðis tengsl einstaklinga með ættrakningu sem styðst við hefðbundna aðferð ættfræðinnar. Í þriðja lagi gerir nútímasameindaerfðafræði mönnum kleift að rannsaka sjálft erfðaefnið eða arfgerð hvers einstaklings, annars vegar til þess að kanna hvort viss arfgerð tengist áhættu af því að fá viðkomandi sjúkdóm og hins vegar til þess að greina þau meingen sem útsetja einstaklinginn fyrir viðkomandi sjúkdómi.

Greining á arfgerð er framkvæmd með því að einangra erfðaefnið, oftast úr blóðfrumum. Þátttakendur í slíkum rannsóknum eru beðnir um upplýst samþykki fyrir notkun erfðaefnis þeirra og upplýsingar um heilsufar þeirra, oftast til rannsóknar á orsökum ákveðins sjúkdóms. Viðkomandi einstaklingur gefur upplýst samþykki sitt til þátttöku í ákveðnu rannsóknarverkefni eða til leitar á orsökum ákveðins sjúkdóms og er ekki heimilt að nýta slíkar upplýsingar til annarra óskyldra rannsóknarverkefna. Upplýsingarnar eru því nánast þríþættar:

1. Heilsufarsupplýsingar.

2. Ættfræðiupplýsingar.

3. Upplýsingar um arfgerð viðkomandi einstaklinga.

Við leit að orsakaþáttum sjúkdóma er oftast þörf að samkeyra upplýsingar úr tveimur þessara þátta eða jafnvel öllum þremur. Um slíkar samkeyrslur verða að gilda strangar reglur, m.a. til þess að tryggja persónuvernd og til að koma í veg fyrir að framkvæmdin brjóti í bága við vísindasiðfræðileg sjónarmið. Í þessu sambandi er því nauðsynlegt að tölvunefnd skilgreini nákvæmt vinnuferli og að nefndin hafi með höndum stöðugt og skilvirkt eftirlit með öllum framkvæmdaþáttum. Þetta er auðvitað afar mikilvægt.

Hvert verður þá hlutverk tölvunefndar þegar litið er á mál þetta í heild sinni og álit meiri hlutans? En minni hlutinn virðist ekki vera sammála okkar mati í því sambandi.

Eins og fram kemur í framhaldsnefndaráliti meiri hluta heilbr.- og trn. er markmiðið með tillögum meiri hlutans að því er varðar breytingar á 10. gr. frv. m.a. að taka af öll tvímæli um að í miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði verði eingöngu heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám. Af því leiðir að ættfræðiupplýsignar og erfðafræðilegar upplýsingar, aðrar en þær sem skráðar eru í sjúkraskrám, verður að geyma í aðskildum grunnum.

Um samtengingu upplýsinga úr þessum þremur gagnagrunnum fer eftir verklagi og vinnuferli sem uppfyllir skilyrði tölvunefndar og skal hún meta það áður en vinnsla hefst. Í þessu sambandi er rétt að hafa þrennt í huga.

Í fyrsta lagi að hér er um þrjá aðskilda gagnagrunna að ræða og ekki verður heimilt að mynda einn allsherjargagnagrunn úr þeim með því að keyra þá varanlega saman. Þetta kemur skýrt fram, virðulegi forseti, í brtt. og frhnál. meiri hlutans.

Í öðru lagi að þegar upplýsingar eða hlutar upplýsinga úr þessum þremur grunnum eru samtengdir tímabundið vegna einstakra rannsóknarverkefna gerist það samkvæmt tillögum meiri hlutans í samræmi við verklag og vinnuferli sem hinn opinberi eftirlitsaðili, tölvunefnd, ber að samþykkja. Það má velta því fyrir sér hvernig slík útfærsla verður. Hugsanlega yrði rætt um sérstaka tilsjónarmenn á vegum tölvunefndar sem verði viðstaddir slíkar samtengingar til að tryggja persónuverndina. Ef tölvunefnd metur það svo að eitthvert annað fyrirkomulag við eftirlit með þessari samtengingu sé tryggara, þá tekur hún vafalaust ákvörðun um það. Aðalatriðið er að það er hinn opinberi, óháði eftirlitsaðili sem á að tryggja persónuverndina við þennan þátt starfseminnar eins og aðra.

Í þriðja lagi að verði frv. þetta að lögum kemur tölvunefnd til með að hafa mjög mikil afskipti af rekstri starfsleyfishafans á grundvelli lögboðins eftirlitshlutverks síns, jafnvel daglegt eftirlit. Það er engin ástæða til að ætla annað en að nefndin geti við samtengingu upplýsinga milli þeirra þriggja grunna sem hér um ræðir tryggt persónuverndina. Það verður hennar hlutverk að ákveða hvað teljist forsvaranlegt í þessum efnum og hvað ekki.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að rifja það upp sem var rætt um í dag og bent á að kæmi fram í frhnál. minni hlutans þar sem ákveðin ummæli voru innan gæsalappa höfð eftir einum nefndarmanni í tölvunefnd án þess að tilgreint væri hver ætti þar hlut að máli. (ÖS: Það hefur verið tilgreint.) Það er rétt, hv. þm. Það hefur verið tilgreint í umræðum hér í dag. (ÖS: Og í skjölum.) Mig langar til þess að geta þess að á fundi nefndarinnar síðasta föstudag spurði ég þennan nefndarmann sérstaklega eftir skoðun hennar á þessum brtt. og því fyrirkomulagi sem meiri hlutinn er að leggja til. Þá sagði viðkomandi aðili: ,,Það er hægt að samkeyra þessa grunna undir reglum um persónuvernd.`` Það er því staðfest, svo að það fari ekki á milli mála.

Virðulegi forseti. Mig langar til að fá að vitna til álitsgerðar um frv. frá Einari Stefánssyni prófessor og Guðmundi Þorgeirssyni dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Í upphafi álitsgerðar þeirra segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Miðlægur gagnagrunnur er öflugt tæki til vísindarannsókna og getur skilað mikilli læknisfræðilegri þekkingu. Sú þekking mun nýtast til skilnings á eðli og umfangi sjúkdóma, gefa vísbendingar um nýjar leiðir til lækninga og varna og getur verið öflugt tæki til að meta árangur og kostnað í heilbrigðiskerfinu. Efnahagslegt gildi gagnagrunns byggist á verðmæti hinnar læknisfræðilegu þekkingar sem hann skilar.``

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin vekja athygli á þessum orðum til þess að sýna að svona hugsa margir úti í þjóðfélaginu til þessa frv. og þeirra tækifæra sem það getur veitt okkur öllum. Hér er um mikið framfaramál að ræða.