Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:48:22 (2377)

1998-12-15 21:48:22# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að viðurkenna neitt í þessum efnum. Þetta liggur fyrir í hugmyndum málsins frá höfundi og umræðum snemma árs 1995. Þetta liggur fyrir í þessum opinberu upplýsingum frá deCODE viðskiptalegs eðlis. Þar kemur þetta skýrt fram.

Hins vegar er rétt að þetta var óskýrt orðað í frv. og mátti misskilja eins og fram hefur komið. En þetta er ekki forsvaranlegt mál á heildina litið. Það er meginefnið. Þessi hugmynd um miðlægan gagnagrunn er alger tímaskekkja og það ekki síst vegna þess að það vantar löggjöf um undirstöðuþætti þessa máls. Það höfum við gagnrýnt allan tímann.

Ég tel að hugmyndin, eins og hún stendur núna, sé í rauninni alltaf að verða fráleitari og fráleitari eftir því sem málið er skoðað frekar eins og fram kemur í því þegar þeir fáu aðilar sem hafa stutt málið eins og Rannsóknarráð Íslands falla frá stuðningi við það. Og margt af því sem er tekið núna inn við 2. umr. málsins, eins og með þessa þverfaglegu siðanefnd sem ekki er óháð siðanefnd, er náttúrlega til þess að gera málið enn þá afkáralegra. Ég skil því ekki hv. stjórnarliða sem eru að reyna að kafa í þetta mál og verja þetta mál, að þeir skuli ekki sjá sig um hönd. Ég held að það eigi eftir að hitta menn, þótt síðar verði, að standa svo afleitlega að máli eins og hér er gert og við eigum eftir að ræða frekar við umræðuna.