Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:33:32 (2382)

1998-12-15 23:33:32# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:33]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Málflutningur hv. þm. segir mér að allt sem hann hefur sagt um þetta mál núna í kvöld er í rauninni ekki það sem beinlínis skiptir máli. Það er verið að hártoga um alls konar dulkóðanir, leynd, aðgang vísindamanna, eftirlit o.s.frv. Við vitum og höfum allan tímann verið sammála um að það yrði í höndum nefnda, tölvunefndar, siðanefndar og annarra, sem fram að þessu hafa í sjálfu sér verið traustsins verðar og eru það enn þá.

Ég er að segja að sá málflutningur sem minni hlutinn hefur haft hér uppi er að stórskaða íslenskt vísindasamfélag og er að gera það með því að færa vísindastörf frá Íslenskum hveraörverum til Bandaríkjanna. Það er nánast verið að gera það. Vísindamenn sem hafa starfað þarna í tíu ár eru að missa störf sín vegna þess að sérleyfi sem þeir báðu um verður ekki veitt vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. Það er verið að skemma fyrir íslenskum vísindamönnum, því miður. Ég spyr hv. þm. hvort það sé virkilega meiningin með þessari villandi umræðu sem fer hér fram að eyðileggja eins og gert hefur verið fyrir vísindasamfélagi og vísindafólki sem svo sannarlega hefur unnið fyrir sínum launum. Og ég ætla að spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki sammála því að hagnýtar rannsóknir á hveraörverum eigi frekar heima á Íslandi og þá meina ég hveraörverum úr íslenskum hverum, hvort þær eigi ekki frekar heima á Íslandi heldur en í Bandaríkjunum. Er ekki í sjálfu sér leyfilegt í hans huga að veita sérleyfi til þess að vinna slík vísindastörf hér frekar en í Bandaríkjunum? Vill hv. þm. það frekar?