Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:35:43 (2383)

1998-12-15 23:35:43# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:35]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sem betur fer hafi engum íslenskum ráðherra komið til hugar að veita sérleyfi til þess að vinna íslenskar hveraörverur í Bandaríkjunum, enda eru þær ekki til í Bandaríkjunum því að þá væru þær ekki íslenskar. (KPál: Þær eru fluttar út, úr hverum.)

Ég gæti spurt hv. þm. nákvæmlega sömu spurningar um gagnagrunninn. Telur hv. þm. þá ekki líka að það sé ósæmilegt að veita erlendu fyrirtæki í rauninni sérleyfi til þess að vinna úr íslenskum heilsufarsupplýsingum?

Mergur málsins er sá, herra forseti, að ég er þeirrar skoðunar að einkarétturinn sé úreltur og sé ekki við hæfi. Af því að hv. þm. talar um að við séum með þessum hætti að vinna gegn rannsóknum þá bendi ég hv. þm. á umsögn Rannsóknarráðs Íslands sem mælir a.m.k. að einhverjum hluta fyrir munn rannsóknarsamfélagsins. Þeir eru á móti þessum gagnagrunni. Það hefur komið fram í umsögn þeirra. Þeir eru því væntanlega að hluta til sammála a.m.k. ýmsum öðrum í stjórnarandstöðunni þó að þeir séu ekki sammála mér um t.d. aðgengi vísindamanna.

Ég held líka að það væru hæg heimatökin fyrir hv. þm. í tengslum við það dæmi sem hann setur hér upp með Íslenskar hveraörverur að spyrja t.d. hvað Vinnuveitendasambandinu finnst um það. Það er eitt af þeim apparötum auk Rannsóknarráðs Íslands sem hefur mælt gegn þessum einkarétti. Það er auðvitað verið að tala um það, herra forseti, að leyfa þeim aðilum sem hafa verið á þessu sviði að halda áfram að rannsaka.

Varðandi Íslenskar hveraörverur var málið allt annars konar. Það átti í raun að meina mönnum og fyrirtækjum sem hafa verið í þessum rannsóknum sl. tíu ár að halda þeim áfram. Það átti að leyfa einu fyrirtæki að fá sérleyfi og það er skilgreint í reglum sem voru a.m.k. settar í drög 4. desember og skrifað undir þær af Finni Ingólfssyni og ráðuneytisstjóra hans að því er ég best veit. Þar er það skilgreint bókstaflega þannig að það hindri aðra í því að gera hagnýtar rannsóknir á íslenskum hveraörverum. Ég held að það ætti að vera nóg til þess að svara spurningum þessa hv. þm. sem eins og ég sagði áðan hefur alltaf verið á bandi samkeppninnar, fylgt þeim flokki, en er skyndilega orðinn annarrar skoðunar, skulum við segja.