Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:38:17 (2384)

1998-12-15 23:38:17# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:38]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson færði að því mjög ljós og skilmerkileg rök að frv. eins og það er núna gangi gegn EES-samkomulaginu sem hefur lagagildi hér á landi og verði þar með dæmt ólögmætt fyrr eða síðar nákvæmlega eins og kvótakerfið sem var lögleitt árið 1983 var dæmt ólögmætt af Hæstarétti Íslendinga. Hann er ekki einn um þessa skoðun. Þetta er skoðun sem hefur komið fram hjá Samkeppnisstofnun og þetta er skoðun sem kom fram hjá flestöllum þeim sem töluðu á fjölmennum fundi Lögmannafélags Íslands.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. að einu. Sé þetta rétt, gangi þetta svona fram, að ríkisstjórnin verði kölluð fyrir dómstóla til skiptist hér innan lands og erlendis og að dómur eða niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA falli á svipaðan hátt og hann hefur lýst að verða muni, hvernig metur hann þá áhættu sem ríkisstjórnin er þá að taka og ríkisstjórnarmeirihlutinn með afgreiðslu málsins nú vitandi að svo getur farið hvað varðar skaðabótakröfur þeirra sem hafa þá fest fé í fyrirtæki þessu á röngum forsendum og síðan eiga að upplifa það eftir tiltölulega skamman tíma að frv. af þessum toga sé dæmt óheimilt samkvæmt alþjóðasáttmálum sem við erum aðilar að og sem hafa lagagildi á Íslandi?