Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:43:21 (2387)

1998-12-15 23:43:21# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:43]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér hefur staðið þingfundur frá því kl. hálftvö í dag þar sem fjallað hefur verið um eitt mál. Stjórnarandstaðan á þingi setti fram þá ósk að málinu yrði frestað þannig að tóm gæfist til að taka það til umfjöllunar í heilbrn. Alþingis og gefa þeim aðilum sem vildu gefa umsögn og höfðu óskað að gefa umsögn um þær breytingar sem meiri hlutinn ætlar að gera á þessu frv. færi á því. Þessari ósk minni hlutans var neitað. Síðan hefur umræða staðið sleitulaust um þetta mál.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvernig hann sér fyrir sér þinghaldið í nótt og næstu daga. Um þinghaldið hefur ekki náðst neitt samkomulag þrátt fyrir ítrekaðan vilja stjórnarandstöðunnar til að ræða þau efni. Um það hafði hins vegar verið rætt að þingfundi lyki um miðnættið og þráðurinn tekinn upp að nýju á morgun. Menn höfðu ekki náð samkomulagi um slíkt, engir samningar höfðu verið gerðir um slíkt, en um það hafði verið rætt. Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvað hann hyggst fyrir um stjórn fundarins næstu klukkutímana.

Mér finnst eðlilegt að fundi verði nú slitið og þráður tekinn upp að nýju á morgun þannig að umræða um þetta mikilvæga mál geti farið eðlilega fram. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð og Alþingi Íslendinga ekki til sóma. Ég óska eftir svari frá hæstv. forsrh. um þetta efni. (Gripið fram í: Forseta.) Forseta. Ég mismælti mig. En það er kannski engin stór tilviljun. (Gripið fram í: Voru þetta nokkuð mismæli?)