Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:46:51 (2389)

1998-12-15 23:46:51# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:46]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þessar ábendingar félaga minna. Það er orðið kvöldsett, farið er að nálgast miðnætti. Við byrjuðum á fundum kl. 8.15 í morgun. Þetta er búinn að vera þéttur dagur. Ég get nefnt sem dæmi að þingflokkur jafnaðarmanna fundaði í hádeginu því ekki hefur verið auðvelt að herja út aukatíma í þinginu fyrir aðra fundi en þingfundi.

Við höfðum uppi nokkrar deilur í dag einmitt vegna þess að ekkert samkomulag hefur verið gert um þinghaldið þrátt fyrir að fjórir dagar séu eftir af áætluðum þingtíma. Það hefur ekki borðið árangur. Nú er komið miðnætti og það liggur ekkert fyrir eins og komið hefur fram hjá þingflokksformönnum óháðra og Alþb.

Ég ætla að minna hæstv. forseta á vinnutímaregluna sem Alþingi hefur lögfest. Það var félmrh. sem bar þá tillögu upp á þingi og hún var samþykkt fyrir rúmu ári síðan. Þar segir að allir eigi að eiga 11 stunda hlé, og hér var kallað fram í áðan að fundur í efh.- og viðskn. ætti ekki að byrja fyrr en klukkan 10 í fyrramálið. Það eru samt bara 10 tímar, herra forseti. En það eru aðrar nefndir sem eiga að byrja kl. 8. Og þó að menn brosi í kampinn og finnist að þetta sé óviðeigandi, þá er það einu sinni svo að ef Alþingi hefur sett lög sem það ætlast til að almenningur lúti, þá er það minnsta sem hægt er að krefjast af okkur sjálfum að við virðum þau lög. Þess vegna fer vel á því, herra forseti, að við ljúkum þessum fundi núna um miðnættið vegna þess að nóg er komið í dag.