Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 14:27:46 (2415)

1998-12-16 14:27:46# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hefur nú verið svarað flestum þeim spurningum sem hv. þm. lagði hér fram. og það er eðlilegt að hv. þm. hafi ekki haft tækifæri til að vera í þingsalnum þá mörgu sólarhringa sem þessi umræða hefur staðið. En ein spurning sem hún bar fram hefur ekki komið fyrir áður og hún er varðandi eftirlit með bókhaldi fyrirtækisins. Eins og kemur fram í frumvarpstextanum er gert ráð fyrir því að heilbrigðisþjónustan njóti hlutdeildar í hagnaði fyrirtækisins. Til þess að svo megi verða þá verðum við að hafa það skýrt í starfsleyfi hvernig við bæði höfum eftirlit og nýtum okkur hagnaðarhlutdeild. Og til þess ætlum við að fá sérfræðinga úr fjármálaheiminum, til að útfæra það fyrir okkur áður en starfsleyfi verður gefið. Þetta er atriði sem kannski hefur ekki komið fram hér fyrr og er rétt að svara.

Varðandi aðra hluti þá langar mig bara að nefna eitt dæmi af því að menn tala mjög um neikvæðar hliðar þessa máls. Ég ætla að nefna einn sjúkdóm. Getum við leyst þá gátu sem gigtin er, gigtargátuna? Ég er ekki að segja að við getum það með þessum grunni en möguleikarnir yrðu meiri en áður. Fyrir utan þá miklu þjáningu sem þessi sjúkdómur veldur (RG: Gigtarlæknar eru ...) þá kostar hann einn og sér 11 milljarða kr. fyrir íslenska ríkið, fyrir utan þjáningarnar sem eru ómældar. Ég segi þetta hérna vegna þess að mér finnst mikilvægt að það komi fram að með þessum grunni erum við auðvitað að styrkja vísindastarf í landinu. En það er eðlilegt að hér komi fram að mikið vísindastarf er í gangi einmitt varðandi gigtina, af því ég minntist á hana, og ég sem heilbrrh. hef styrkt það alveg sérstaklega á vegum Ríkisspítala. Þar er unnið mjög mikið og merkilegt starf, eins og víða í vísindaheiminum. En þetta er viðbót sem hér kemur fram.