Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 16:11:14 (2425)

1998-12-16 16:11:14# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eitt rétt sem fram kom í máli hv. þm. og það er orðið sérkennilegt. Því það er alveg rétt, þetta er allt mjög sérkennilegt. Hann talar um upplýst samþykki. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur áðan að þetta hljómar eins og hvert annað öfugmæli gagnvart réttindaleysi þroskaheftra, geðsjúkra og barna sem eiga eftir að hafna inni í þessum grunni og geta aldrei farið þaðan út. Ekki verðu hægt að koma neinum leiðréttingum við og síðan eru menn að tala um að þetta sé svo gott í vísindaskyni. (Gripið fram í: Það er gengið frá slíkum málum í samningum.) Síðan er gengið frá slíkum málum í öllum samningunum og reglunum. Hvar eru þær? (Gripið fram í: Í alþjóðlegum sáttmálum.) Í alþjóðasáttmálanum, í Helsinki-yfirlýsingunni er vísað í reglugerðir og reglur sem ekki eru til. Þetta er ein aðalgagnrýni okkar hér í þinginu, við viljum fá að vita að hverju er verið að ganga. Það á að leysa ýmsa hluti með því að skipa nefnd sem enginn veit hvernig á að skipa eða hverjir eiga að sitja í. Það á að leysa hluti með reglugerðum og reglum sem enginn fær að sjá og tölvunefnd og þeir aðilar sem eiga að gæta almannahagsmuna samkvæmt lögunum ráðleggja okkur að fella þessi lög, að ganga ekki að þeim. Síðan koma menn hér og gagnrýna mig fyrir sjálfumgleði. Ég ætla ekki að hafa nein orð um það en þetta er svo ótrúlegur hroki sem fram kemur í þessu. Því miður er annað og meira sem hangir á þeim hroka, það er ótrúleg grunnhyggni.