Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 16:27:05 (2432)

1998-12-16 16:27:05# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég minnist þess nú ekki að hafa tekið svo sterkt til orða að segja að stuðningurinn færi ört vaxandi við frv. Ég var hins vegar að benda á að ég teldi ekki að þjóðin hefði snúist gegn frv. eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt hér fram. Ég spyr, hvaðan hefur hv. þm. þá vitneskju að þjóðin sé að snúast gegn frv.? Ég veit hins vegar að hv. þm. Ögmundur Jónasson er búinn að vera í miklum samræðum við alla helstu andstæðinga frv. sem hafa setið hér uppi á pöllum yfir umræðunni, verið í miklum samskiptum við þá og fengið mikið fóður og upplýsingar, og er það bara virðingarvert, en ég efast um að þeir sem eru jákvæðir í málinu hafi haft mikið samband við hv. þm. Ögmund Jónasson. (HG: Hverjir eru það?) En þeir sem hafa verið jákvæðir --- það eru fjölmargir einstaklingar sem hafa haft samband og eru mjög jákvæðir (HG: Samtök sjúklinga?) Það eru líka aðilar sem eru í samtökum, sjúklingasamtökum. Ég ætla hins vegar ekki að hafa eftir sérstök einkasamtöl. En ég vil minna á það t.d. að MS-félagið er mjög hlynnt þessu máli. (ÖJ: Til dæmis.) Til dæmis MS-félagið, já. Mjög hlynnt málinu. Og þeir bera ákveðnar vonir í brjósti gagnvart rannsóknum sem stundaðar eru og þessum miðlæga gagnagrunni. En ég vil hins vegar taka undir að það má ekki vekja einhverjar falskar vonir. (ÖJ: Það er einmitt það sem verið að gera.) Ég vil ítreka að þessi gagnagrunnur verður ekki til fyrr en eftir fimm ár, trúlega ekki fyrr en eftir fimm ár. Við fáum því ekki einhverjar mjög jákvæðar niðurstöður sem gjörbreyta hér læknisþjónustu og heilsufari fyrr en eftir hugsanlega, ég veit það ekki, 10--20 ár. En þetta er framtíðarverkefni, framfaraverkefni, gott verkefni, og ég styð það heils hugar.