Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 16:29:04 (2433)

1998-12-16 16:29:04# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[16:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að óska eftir því að menn færi rök fyrir máli sínu. Mér er vel kunnugt um að MS-félagið hefur stutt þetta mál í langan tíma. En allflest önnur samtök sjúklinga hafa lagst gegn þessu frv. Heilbrigðisstéttirnar hafa lagst gegn frv. Siðaráð Læknafélagsins hefur lagst gegn frv. mjög afdráttarlaust. Vísindasiðaráð hefur lagst gegn frv. Allir þeir aðilar sem þjóðfélagið hefur falið að gæta almannahagsmuna þegar kemur að vísindum og rannsóknum og siðfræði læknisfræðinnar hafa lagst gegn þessu frv. og ef það er einhver sem er að ala á fölskum vonum, þá er það þessi ríkisstjórn.

[16:30]

Mér finnst vægast sagt vafasamt ef ekki lágkúrulegt að hafa uppi málflutning af þessu tagi vegna þess að þeir vísindamenn sem sinna sjálfir þessum rannsóknum, sem vinna við þetta sjálfir og eiga ekki beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta og þá er ég að tala um vísindamenn hér á landi og erlendis, vara mjög eindregið við því að samþykkja frv. vegna þess að það muni torvelda rannsóknir. Ekki auðvelda þær heldur torvelda þær og við höfum verið að færa rök fyrir því í löngum ræðum í umræðu um málið hvernig þröskuldarnir verða til. Við fáum aldrei nein svör við því, við fáum aldrei nein rök sett fram í málinu heldur einvörðungu yfirlýsingar af því tagi sem við heyrðum áðan. Hér er kort sem sýnir afstöðu þeirra sem hafa látið sig málið varða. Rauði flöturinn sýnir þá sem hafa tekið afstöðu gegn frv. Grænu aðilarnir eru því fylgjandi og þeir eru í flestum tilvikum samstarfsaðilar væntanlegs sérleyfishafa. Það segir held ég allt sem segja þarf.