Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:38:27 (2440)

1998-12-17 10:38:27# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:38]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég held að það sé mikilvægt þegar hv. þm. óska eftir umræðu utan dagskrár um mál eins og þetta að þeir séu búnir að kynna sér þau gögn sem liggja til grundvallar slíku máli nema það sé vilji hv. þm. að fara alls ekki í það að kynna sér gögnin og fara þar af leiðandi með hrein ósannindi eins og hv. þm. gerði hér. Þess vegna sé ég mig tilneyddan til þess að fara yfir samskipti Hitaveitu Suðurnesja og iðnrn. frá þeim tíma er fyrst barst erindi frá Hitaveitu Suðurnesja um ósk um leyfi til þess að virkja í Svartsengi.

20. nóv. 1995 fer Hitaveita Suðurnesja þess á leit við ráðuneytið að það veiti heimild til að virkja allt að 25 megavött rafmagns á orkuveitusvæði sínu til viðbótar þeim virkjunum sem fyrir voru sem voru 16,5 megavött. Því bréfi er svarað af ráðuneytinu rétt rúmum mánuði síðar, 27. des. 1995, þar sem segir að ráðuneytið geti ekki fjallað efnislega um beiðnina né sent hana til umsagnar Orkustofnunar þar sem gögn sem kveðið er á um að fylgja skuli umsókn um virkjunarleyfi skv. 11. gr. orkulaga fylgi ekki með.

Næst heyrist frá Hitaveitu Suðurnesja 10 mánuðum eftir þetta með bréfi sem hún sendir til ráðuneytisins. Er þá verið að biðja um leyfi til þess að virkja? Nei, þá er verið að biðja iðnrn. að kanna það gagnvart umhvrn. hvort þessi virkjun þurfi að fara í mat. Síðan tekur rúmlega eitt ár að kanna það milli umhvrn. og iðnrn. hvort slík virkjun skuli fara í mat. Úrskurður umhvrh. var upphaflega sá að virkjunin þyrfti að fara í mat. Þegar betur var hins vegar að gáð og farið ofan í alla lagakróka sem þar voru í kring og þau réttindi sem fyrirtækið hafði aflað sér kom í ljós að ekki væri nauðsynlegt að senda þetta fyrirtæki eða þessa framkvæmd í mat.

Það er ekki síðan fyrr en 28. febrúar 1997 að Hitaveita Suðurnesja ítrekar umsókn sína, 1997, tveimur árum síðar, sem hún ítrekar umsókn sína um virkjunarleyfið við iðnrn. með þeirri breytingu að þá er ekki lengur óskað eftir 25 megavöttum heldur er þá óskað eftir 30 megavöttum vegna þess að þá kemur upp að það eigi að leggja niður orkuver 1 og í staðinn eigi að koma orkuver 5 sem verið er að byggja 30 megavatta virkjun á móti tveimur megavöttum sem átti að leggja af.

2. apríl 1997 fer Hitaveita Suðurnesja, þá fyrst, eftir ítr\-ekaðar ábendingar iðnrn. og Orkustofnunar að ekki sé hægt að gefa út slíkt leyfi nema fyrir liggi samrekstrarsamningur Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar um rekstur kerfisins sem er lagaskylda að liggi fyrir við slíkar kringumstæður. Það er síðan í september 1997 sem úrskurðað er í því að ekki þurfi að fara fram mat á umhverfisáhrifum. 7. október er það síðan tilkynnt til Hitaveitu Suðurnesja. 16. maí 1997 kemur bréf frá Hitaveitu Suðurnesja þar sem óskað er eftir því að það verði kannað með Orkustofnun að fara í þessar framkvæmdir og Orkustofnun leggur mat á málið. Það er síðan gert og Orkustofnun skilar erindi til iðnrn. 28. ágúst 1998, á þessu ári. Það bréf er síðan sent beint til Hitaveitu Suðurnesja og óskað athugasemda Orkustofnunar á því máli. Þá berst svar við því bréfi til ráðuneytisins 19. október eða fyrir tveimur mánuðum.

Herra forseti. Niðurstaða þessa máls er því sú að samskipti ráðuneytisins og Hitaveitu Suðurnesja eru í réttum og eðlilegum farvegi eins og lög gera ráð fyrir. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skal, áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdir sem kunna vegna staðsetningar, starfsemi, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir, samfélag, fara fram mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt úrskurði umhvrn. þarf slíkt mat ekki að fara fram. Þetta liggur fyrir.

Samkvæmt lögum ber ráðherra að leita umsagnar Orkustofnunar um það hvort veita beri slíkt leyfi og mat Orkustofnunar á m.a. að byggjast á því hvort skilyrði um hagkvæma nýtingu orkulindanna, hagkvæman rekstur orkukerfisins sé til staðar og hvort samrekstrarsamningur hafi komist á milli Landsvirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja. Það hefur enn ekki gerst þannig að iðnrh. hefur ekki lagaheimildir og hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að standa í þessum ræðustóli og krefjast þess að gefin séu út leyfi til fyrirtækja þegar ráðherra skortir heimildir til þess. Samrekstrarsamningurinn þarf að vera til staðar og það er hart að þurfa að taka upp utandagskrárumræðu um fáfræði hv. þm. á þessum hlutum.