Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:44:20 (2441)

1998-12-17 10:44:20# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:44]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Auðvitað er erfitt fyrir okkur hv. þm. að reyna að leggja mat á það þegar orð hv. þm. og hæstv. ráðherra stangast á um hver framvinda mála er innan stjórnsýslunnar. Það skiptir auðvitað miklu máli að stjórnsýslan sé skilvirk og svari bréfum og umsagnir liggi fyrir á réttum tíma.

En mál þetta snýst bara ekkert um stjórnsýsluna. Þetta snýst um það hvort eigi að leyfa að virkja hagkvæma virkjun hjá Hitaveitu Suðurnesja og það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir alla þjóðina að við nýtum hagkvæma virkjunarkosti okkar hvar sem þeir eru á landinu. Það hýtur að liggja í augum uppi að þjóðin öll mun njóta þess ef virkjað er á hagkvæman hátt.

En málið er líka stærra en bara virkjun Hitaveitu Suðurnesja. Þetta snýst um hvort við ætlum að auka frjálsræði í orkumálum okkar eða ekki. Hæstv. ráðherra hefur lagt fram á Alþingi þáltill. þess efnis og sú tillaga var langt komin í umfjöllun síðasta þings. Sú tillaga er lögð fram með stuðningi mínum vegna þess að ég vil auka frjálsræðið og ég vil auka samkeppnina. Ég er sannfærður um að ef sú stefna nær fram að ganga sem ráðherrann hefur borið fyrir brjósti verður það ekki lengur deiluefni á Alþingi hvort eigi að leyfa Hitaveitu Suðurnesja að virkja eða virkja ekki. Þá verður einfaldlega hagkvæmnin sem ræður málinu, hvort það er hagkvæmt að virkja eða ekki að teknu tilliti til þess hvort virkjunin stenst mat á umhverfisáhrifum.

Landsvirkjun hefur verið, er og verður mikilvægt fyrirtæki fyrir þjóðina alla en við megum ekki gæta hagsmuna Landsvirkjunar á svo kraftmikinn hátt að við séum að ganga á hagsmuni annarra virkjunarfyrirtækja og þeirra sem að þeim standa.