Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:51:32 (2444)

1998-12-17 10:51:32# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:51]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Að undanförnu hefur komið fram að Landsvirkjun hefur þurft að takmarka orkusölu til viðskiptavina sinna. Ástæður fyrir því eru óvænt ástand á hálendinu og hefði einhvern tíma þótt skjóta skökku við að skortur væri á beislaðri orku á Íslandi. Á sama tíma liggur fyrir að möguleikar eru á að fá inn á kerfið orku frá Hitaveitu Suðurnesja.

Þetta leiðir hugann að þeirri stefnu sem hefur verið ríkjandi um áratuga skeið með áherslu á vatnsvirkjun og leiðir jafnframt hugann að því hve lítinn hluta af gufuafli við höfum nýtt á Íslandi. Það ástand sem almennt er í orkumálum núna vegna aðstæðna á hálendinu hlýtur líka að leiða hugann að því og vekja upp spurningar um hvort ekki sé mikilvægt að hafa fjölbreytni í raforkuframleiðslu og leggja meiri áherslu á gufuaflsvirkjanir en gert hefur verið.

Hitaveita Suðurnesja hefur sýnt að hún getur framleitt ódýrara rafmagn en flestar aðrar virkjanir. Það liggur líka fyrir að á Nesjavöllum er rafmagn framleitt með sambærilegum hætti og þar hefur nú fengist nýlega leyfi til hins mikla orkufyrirtækis í eigu Reykjavíkurborgar. Það liggur líka fyrir að sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur hafa óskað eftir því að mynda samstarf og eignast hlut í Hitaveitu Suðurnesja og mynda sambærilegan orkurisa og Hitaveita Reykjavíkur er. Það tel ég vera afskaplega mikilvægt fyrir þessi sveitarfélög og fyrir orkumarkaðinn í landinu. Þess vegna eru í rauninni öll efnisleg og pólitísk rök fyrir því að veita Hitaveitu Suðurnesja þá heimild sem um er beðið, en að sjálfsögðu þarf það að fara í eðlilegan farveg og það þarf að byggjast á lögum. Alþingi hefur upplifað það að undanförnu hvað gerist ef ekki er farið að lögum, samanber úrskurð Hæstaréttar þannig að málið þarf að fá efnislega meðferð og ég tel að hún sé til staðar.