Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:56:52 (2446)

1998-12-17 10:56:52# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:56]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Sú umsókn um virkjunarleyfi frá Hitaveitu Suðurnesja til hæstv. iðnrh. sem nú er rædd er nær jafngömul embættistíð ráðherrans. Það er athyglisvert og verður að viðurkennast, herra forseti, að þann tíma sem umsóknin hefur verið til umfjöllunar hefur nánast öllum úrræðum sem hægt er að beita verið beitt til að tefja niðurstöðuna. Það er a.m.k. mitt álit, herra forseti. Þó vil ég nefna nokkur atriði sem ég tel skipta miklu í þessu efni.

Á sama tíma hefur ráðherrann veitt annarri hitaveitu sambærilegt virkjunarleyfi á sambærilegu virkjunarsvæði. Umsókn Hitaveitu Suðurnesja byggir á undirbúningsathugunum sem eru í fullu samráði við helsta ráðgjafa ríkisstjórnarinnar um orkuvirkjanir, þ.e. Orkustofnun, alveg frá upphafi. Ekki verður sagt nákvæmlega það sama um hina virkjunina sem hefur fengið leyfi. Við þessar athuganir hefur komið í ljós að virkjun Hitaveitu Suðurnesja framleiðir raforku ódýrar en aðrar virkjanir sem fyrir eru og þær sem í starfi eru í dag, að meðtalinni virkjun á Nesjavöllum. Hún nýtir orkulindina betur en nokkur núverandi virkjana. Og það sem hæstv. iðnrh. taldi að hefði nýlega komið fram en er löngu komið fram og hefur verið fyrirliggjandi frá upphafi, er að hún kemur í stað eldri virkjunar sem er að úreldast og verða allt of dýr og afskaplega lítt umhverfisvæn.

Það er síðan merkilegt, herra forseti, að á tímabilinu hefur komið í ljós að Landsvirkjun skortir orku til að eiga viðskipti við sína stærstu og bestu viðskiptavini. Hún er á fullu að undirbúa sínar eigin virkjanir en samt sem áður hefur ekki náðst samningur, samrekstrarsamningur sem kallaður er, milli Landsvirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja. Allan þennan tíma, herra forseti, hefur umsókn Hitaveitu Suðurnesja í þessu formi eða fyrra formi legið fyrir og samstarf hennar við Orkustofnun um undirbúning þessarar virkjunar er miklu eldra en ráðherrann í embætti og var allan tímann vitað af öllum sem um þetta fjalla.