Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:59:19 (2447)

1998-12-17 10:59:19# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:59]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Hitaveita Suðurnesja hefur stefnt að því að auka við virkjunarkost sinn í Svartsengi í langan tíma og kannað bak við tjöldin hvernig best væri að því staðið í samræðum við Orkustofnun, Landsvirkjun og ráðuneyti. Skýringin á því að þessar umsóknir komu ekki fyrr er að umræður og viðræður í kerfinu taka ótrúlega langan tíma.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram hér að viðbrögð Landsvirkjunar hafa verið afskaplega neikvæð og þar hafa menn litið í raun á Hitaveitu Suðurnesja sem samkeppnisaðila á hinum almenna markaði í orkusölu.

Það er náttúrlega mjög slæmt þegar einokunarfyrirtæki eins og Landsvirkjun geta haldið niðri eðlilegri stækkun á mjög öflugri og mikilvægri veitu eins og Hitaveita Suðurnesja er sem hefur markvisst getað byggt upp alveg ótrúlega sterka stöðu og náð, eins og komið hefur fram, samstarfi við nágrannasveitarfélög þannig að í dag er að verða þarna til ein öflugasta virkjun og veita landsmanna. Mér finnst það ekki stórmannlegt af hæstv. ráðherra að tína til bréf sem hafa komið á þessum eða hinum tímanum. Það er ekki allur sannleikurinn í málinu.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka nú á þessu máli með föstum tökum og knýja það í gegn. Það er ljóst að það gagnast ekki eingöngu öllum raforkunotendum hér heldur einnig þeirri ósk allra landsmanna að reyna að vernda náttúruperlur á hálendinu eins og kostur er.