Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:05:26 (2450)

1998-12-17 11:05:26# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:05]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Reykn. fyrir að taka þetta mál upp utan dagskrár. Þetta er ákaflega heitt mál á Suðurnesjum og ég tel að sú ágæta umræða sem hér hefur farið fram muni geta varpað ljósi á málið og gert það skýrara auk þess sem hún getur rekið á eftir að úr málinu leysist.

Hitaveita Suðurnesja er óskabarn okkar Suðurnesjamanna og við Suðurnesjamenn erum ákaflega stoltir af fyrirtækinu og öllum þeim framkvæmdum sem Hitaveitan hefur staðið fyrir og hafa verið til mikillar fyrirmyndar. Nú eru þeir með það á prjónunum að reisa gufuaflsvirkjun upp á 30 megavött, ákaflega hagkvæman kost og hann er hagkvæmur að allra dómi.

Það fara fram viðræður við Landsvirkjun um hvernig samskiptum við Hitaveitu Suðurnesja verður háttað í framtíðinni. Hæstv. iðnrh. hefur bent á að það sé fyrst og fremst á því sem standi, þ.e. að þessar viðræður hafa ekki gengið sem skyldi og ég vildi hvetja hæstv. ráðherra til að beita áhrifum sínum sem iðnrh. til að þær viðræður geti gengið betur. Hæstv. ráðherra hlýtur að geta haft töluverð áhrif á gang þeirra mála.

Ég vona að þetta endi með því að þetta leyfi fáist til Hitaveitu Suðurnesja þannig að hún geti nýtt þennan hagkvæma kost landi og þjóð til heilla. Ég vil benda á að fordæmið er fengið frá Hitaveitu Reykjavíkur og Nesjavallavirkjun. Það þarf ekkert að deila um það. Það er best að feta í þau fótspor.