Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:30:44 (2462)

1998-12-17 11:30:44# 123. lþ. 44.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta dapurlega mál er nú að koma til lokaafgreiðslu. Málatilbúnaður er allur þannig að augljóst er að málið er ótækt til afgreiðslu hversu sterkt sem menn kjósa að taka til orða í þeim efnum, allt frá því að hér sé á ferðinni minni háttar mál og upp í það að um sé að ræða um stórfelldan álitshnekki fyrir þjóðina út á við, alþjóðlegan skandal.

Vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta eru stórlega ámælisverð. Hér hefur verið beitt ofbeldi, bæði í þinginu og af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur verið sýnd sérstök og óvenjuleg harka í að knýja þetta forgangsmál, sérstaka gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, áfram. Um málið er logandi ágreiningur úti í þjóðfélaginu og hörð andstaða er við það hjá þeim sem eiga að standa að framkvæmd málsins ef af verður, þar á meðal að leggja til upplýsingar í hinn miðlæga gagnagrunn.

Sú hugsun að ætla að færa einu einkafyrirtæki með erlenda áhættufjárfesta á bak við sig einkarétt á því að græða á heilsufars- og erfðaupplýsingum þjóðarinnar er vægast sagt ógeðfelld, herra forseti. Ég segi nei.