Tryggingagjald

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:15:13 (2488)

1998-12-17 12:15:13# 123. lþ. 44.16 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:15]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til þess að ná því góða markmiði að auka sparnað þjóðarinnar og veitir ekki af þegar menn horfa á þann gífurlega viðskiptahalla sem er í gangi.

Þetta frv. er flutt til viðbótar við þau frumvörp sem flutt hafa verið áður og samþykkt hafa verið um að 2% iðgjald launþega í lífeyrissjóð til viðbótar við það iðgjald sem greitt hefur verið hingað til séu skattfrjáls og þau nýtast að sjálfsögðu þeim framteljendum sem yfirleitt greiða skatt sem er 1/3. Ég geri ráð fyrir að það ákvæði muni valda því að um 10% af launþegum í landinu muni nýta þennan kost. Eins og ég gat um við 2. umr. kostar heilmiklar upplýsingar til launþega og atvinnurekenda að ná þessu markmiði. Þar er eingöngu um að ræða frestun á skattgreiðslu vegna þess að þegar kemur að útborgun lífeyris þurfa menn að borga skatt af lífeyrinum, líka á þeim hluta sem er fjármagnstekjur og verðbætur sem er þá skattað með fullum skatti en ella mundi falla undir fjármagnstekjur. Þess vegna er þetta allt að því óskynsamlegt ef menn horfa þannig á hlutina fyrir þá aðila sem geta frestað skattgreiðslum.

Varðandi það að atvinnurekendur leggi 0,2% af launum, þ.e. lækkun á tryggingagjaldinu til viðbótar, hef ég ekki sannfæringu fyrir því að það muni nokkurn tíma ná almennri útgreiðslu. Það kostar það mikið að upplýsa alla launþega og atvinnurekendur í landinu um þetta atriði að það mun ekki ná fram. Eins og ég gat um áðan gæti verið að 10% af framteljendum nýtti 2% en ég hygg að það verði ekki nema 1--2% sem muni nýta þessi 0,2% enda er um mjög lágar upphæðir að ræða, jafnvel bara 200--300 kr. á mánuði fyrir hvern launþega. Síðan þarf að gera samninga við ákveðin fyrirtæki, svo rifta menn samningnum, svo taka menn hann upp á nýtt, fólk er að hætta, fólk er að byrja upp á nýtt. Allt þetta kostar svo mikla vinnu í vinnslu að ég hef enga trú á því að þetta muni hafa nein áhrif nema kannski fyrst til að byrja með sálfræðileg áhrif. Eftir tvö, þrjú ár verður þetta það mikil vinna að upplýsa um þetta ákvæði að það verður löngu gleymt. Ég spái því að 1--2% af launþegum landsins muni nýta þetta ákvæði en alls ekki eins og menn reikna með.

Það er oft þannig, herra forseti, að fólk setur sig mjög vel inn í ákveðna þætti atvinnulífsins, ákveðna þætti lagasetningarinnar, verður mjög uppnumið af þeirri þekkingu sinni og telur að allir aðrir í þjóðfélaginu hafi sama áhuga og sömu þekkingu á þessum málum. Flest fyrirtæki í landinu eru að starfa til að framleiða eitthvað annað en iðgjöld í lífeyrissjóði og flest fyrirtæki í landinu hafa önnur markmið en að lækka skatta sína eða greiða skatta til ríkisins. Fyrirtækin eru að stunda atvinnurekstur en ekki að standa í því að borga iðgjöld í lífeyrissjóði eða losna við að borga skatta. Sú geysilega flækja sem þetta mál veldur í skattkerfinu er að mínu mati mjög ófélagsleg. Það er mjög ófélagslegt að hafa skattkerfi mjög flókið vegna þess að það nýtist eingöngu þeim sem hafa endurskoðendur og eru velmegandi og hafa háar tekjur. Þetta gerir það að verkum að ég hef enga sannfæringu fyrir þessu máli og ég mun sitja hjá við afgreiðslu þess.