Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:27:19 (2492)

1998-12-17 12:27:19# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:27]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég er því eindregið fylgjandi að varðskip verði smíðað hér á landi eða öllu heldur sett saman hér á landi því að að drjúgum hluta er um að ræða samsetningu en að einhverju leyti nýsmíði og ég er því eindregið fylgjandi að við framkvæmum þetta verk hér á landi. Þess vegna styð ég þetta frv. enda þótt áhöld séu um að það standist EES-samkomulagið.

Ástæða þess að ég var andvígur EES-samningnum á sínum tíma og tel hann þegar á heildina er litið hafa verið til mikillar óþurftar fyrir Íslendinga er einmitt sú að samningurinn takmarkar lýðræðislegt vald í landinu. Okkur eru settar ákveðnar og strangar leikreglur á markaði. Það ber að fara í útboð með öll meiri háttar verk og hér er um að ræða eitt slíkt. Þótt Íslendingar vilji ráðast í framkvæmdir af þessu tagi hér á landi til að efla í þessu tilviki íslenskan skipaiðnað eru okkur settar þessar takmarkanir af EES-samkomulaginu.

Ástæða þess að ég skrifa nafn mitt undir nál. er sú að ég vil láta á það reyna, og þar er komin skýringin á fyrirvaranum, hvort þetta stenst EES-samninginn eða ekki en ég tel að þarna sé uppi mikið álitamál. Ástæða þess að ríkisstjórnin og meiri hlutinn telur að þetta standist EES-samkomulagið er sú að hér sé um að ræða, eins og fram kom í máli framsögumanns, öryggishagsmuni og grundvallarhagsmuni ríkisins. Þá hljóta náttúrlega að vakna upp ýmsar spurningar í tengslum við sjálfa framkvæmdina, hvort ekki þurfi að grípa til sérstakra varúðarráðstafana við þær skipasmíðastöðvar sem koma til með að hafa þetta verk með höndum því það gengur náttúrlega ekki að óviðkomandi menn komi þarna að máli eða geti aflað sér upplýsinga um þau hernaðarleyndarmál sem kunna að tengjast smíði varðskipsins. En þetta er eins og fram kemur röksemdin fyrir því að við getum farið á bak við þær skuldbindingar sem við höfum gert þarna í gegnum EES.

Mér finnst svolítið hlálegt, hæstv. forseti, að þeir aðilar sem harðast börðust með EES-samningnum á sínum tíma og þreytast seint á að dásama þann samning eru þegar á reynir tilbúnir að fara á bak við samninginn og reyna á þanþol hans. Ég er tilbúinn að gera það vegna þess að ég tel þetta vera þjóðþrifamál. Ég tel þetta mikið þjóðþrifamál og mikið hagsmunamál fyrir íslenskan skipaiðnað og fyrir íslenska þjóð að þetta sé framkvæmt hér á landi. En ástæðan fyrir því að ég hef verið andvígur EES-samkomulaginu eru þrengjandi ákvæði af þessu tagi en þá vil ég að Íslendingar geti tekið ákvarðanir um efni eins og þessi, um ráðstafanir eins og þessa, og borið höfuðið sæmilega hátt og talað hreint um málin og á íslensku en komist hjá því að fara í röksemdafærslu af því tagi sem hefur verið sett fram í þessu máli til að rökstyðja þessa ráðstöfun.