Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:31:52 (2493)

1998-12-17 12:31:52# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:31]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður talaði í miklum vafatón um það hvort þetta stæðist lög og reglur að haldið væri svona á málum eins og hér hefur verið lagt til varðandi smíði nýs varðskips og talaði um samsetningu skips hér á landi. Nú kann það vel að vera að heppilegt sé að kaupa skipsskrokkinn erlendis frá og raða síðan í hann hér og ganga frá innréttingum. Það kann vel að vera.

Hins vegar var eitt sem ég vildi aðeins koma inn á. Hann varpaði fram spurningu um hvort þetta mundi standast EES samkomulagið og það sem við höfum tekið ákvörðum um að fylgja og var efins um það.

Ég hef sagt það áður að til að komast fram hjá öllum þessum vanda væri eðlilegt að taka upp nánara samstarf við NATO og setja í varðskipið kafbátaleitartæki. Þá væri þetta orðið alvöruherskip. En það sem hann kom inn á að eðlilegt væri að ekki kæmu erlendir aðilar að smíði þessa varðskips vegna upplýsinga sem þeir ættu ekki að fá eða eiga greiðan aðgang að, t.d. innréttingu varðskipsins, kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir og er sérkennilegt á að hlýða. Þau varðskip sem við höfum keypt á umliðnum árum --- elsta varðskipið er líklega orðið 40 ára og er orðin ástæða til að endurnýja það --- voru smíðuð í Danmörku og ég vissi ekki að neinn slíkur háttur væri hafður á við smíði þeirra skipa að mikil leynd þyrfti að hvíla þar yfir. En ef menn eru í einhverjum vafa, þá tel ég að þetta sé leiðin. Ég tel það ekki óeðlilegt auk þess sem ég hef nefnt áður --- en ég veit ekki hvort það hafi nokkurn tíma verið athugað --- hvort ekki væri rétt að leita í mannvirkjasjóð NATO til að fá fjárstuðning við að endurnýja allan varðskipaflotann.