Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 13:58:45 (2503)

1998-12-17 13:58:45# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna sölunnar á SR-mjöli get ég staðfest að salan var umdeild en í sjálfu sér er það mál búið og gert. Hins vegar held ég að við hljótum að fagna því báðir að fyrirtækinu hefur gengið vel í höndum þeirra eigenda sem fengu fyrirtækið. Haraldur í Andra er ágætis vinur okkar beggja en þau mál fóru í ákveðinn farveg sem ég hef ekki meira um að segja í bili.

Varðandi FBA þá kemur skýrt fram í grg. með frv. og hefur margoft komið fram hver stefnan er varðandi söluna á 51%. Það er óþarfi að éta það sérstaklega upp í nál. Þetta liggur fyrir. Ég tel augljóst að heppilegast sé að stefna að þessu eins og talað er um í grg., með því að bjóða þetta út í bitum, reyna að ná sem hæstu verði fyrir bankann og jafnframt að tryggja að til að byrja með verði bankinn sjálfstæður. Síðan er auðvitað spurning um hvað væntanlegir eigendur bankans vilja gera í framtíðinni. Vilja þeir að hann renni saman við önnur fyrirtæki á markaðnum eða að bankinn starfi áfram sjálfstæður? Um það verður þá tekin viðskiptaleg ákvörðun af hálfu þeirra sem eignast bankann. Fyrir hönd ríkisins sem er að selja bankann tel ég eðlilegt að stefna að því að fá annars vegar sem mest verð fyrir þessi 51% sem eftir er og hins vegar að bankinn auki samkeppnina á markaðnum. Þetta tvennt, hátt verð plús það að auka samkeppni á markaðnum, tel ég mjög æskileg markmið.