Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:03:09 (2505)

1998-12-17 14:03:09# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er tekið til 2. umr. frv. til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem felur í sér heimild til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Ekki er ýkja langt síðan, herra forseti, að þetta mál, sem komið er til 2. umr., var tekið til 1. umr. og býst ég við að það sé ekki meira en mánuður síðan. Ég hélt satt að segja að miðað við það sem hefur verið að gerast á peningamarkaðnum og það sem gerst hefur við sölu á hlutafé í bönkunum almennt að þá mundi hv. efh.- og viðskn. taka sér lengri tíma í að skoða þetta mál og skoða í ljósi reynslunnar hvort ekki væri ástæða til þess að búa betur um hnútana en gert er í þessu frv., ekki síst í ljósi þess að nokkuð hörð viðbrögð hafa verið við því sem gerst hefur á markaðnum, t.d. við sölu á hlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þ.e. þeim 49% sem hæstv. ráðherra hafði heimild til. Meðal annars var stofnað til utandagskrárumræðu um málið þar sem hæstv. ráðherra var inntur svara við ýmsum spurningum sem sú sem hér stendur lagði fyrir hæstv. ráðherra, sem ég verð að segja, herra forseti, að hæstv. ráðherra svaraði engan veginn fullkomlega.

Það verður að segja líka, herra forseti, að nál. sem kemur frá meiri hlutanum er ekki mikið að vöxtum miðað við hvað óskað er heimildar fyrir, þ.e. að selja 51% í Fjárfestingarbankanum sem eru nokkrir milljarðar, við erum kannski að tala um yfir 5 milljarða kr. Það eina sem segir í nál. meiri hlutans er hverjir mættu á fund nefndarinnar og síðan að meiri hlutinn mæli með samþykkt frv. Ekki orð um það, herra forseti, hvað hefur verið að gerast á markaðnum, ekki orð um reynsluna af þessu og lítið kom fram í framsöguræðu formanns hv. efh.- og viðskn. um skoðun hans á því sem hefur verið að gerast, sem maður hefði haldið að yrði eytt meiri tíma í, bæði hér í ræðustól og í hv. efh.- og viðskn. vegna þess að það eitt liggur þó ljóst fyrir og ég vænti að við getum verið sammála um, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu að markmið ríkisstjórnarinnar, markmið hæstv. ráðherra, hefur ekki náðst fram um dreifða eignaraðild.

Ég mun því, herra forseti, þurfa að fara nokkrum orðum um þetta frv. ef það er virkilega ætlan hæstv. ríkisstjórnar að keyra málið í gegnum þingið á þeim stutta tíma sem eftir lifir til jóla og satt að segja undrar mig nokkuð, herra forseti, sá forgangur sem birtist hjá þessari ríkisstjórn bæði í gær og í dag, hvað það er sem hún leggur áherslu á að ná fram fyrir jólin. Ég hef ekki séð neinn forgangslista frá ríkisstjórninni hvað það er sem hún ætlar að leggja áherslu á en við sjáum að það er gagnagrunnurinn, að afhenda einkaleyfi á gagnagrunninum til eins aðila, og síðan greinilega að hefja frekara kapphlaup um kennitölur landsmanna sem stuðlar að því að þessi banki komist hraðar en mann óraði fyrir í hendur á fjársterkum aðilum og fámennum hópi peningamanna.

Ég minni á, herra forseti, í þessu sambandi að þegar við fjölluðum um hlutafélagavæðingu bankanna fyrir nokkrum árum og eins við umræðuna um Fjárfestingarbankann í fyrra kom það mjög fram í máli þingmanna við umræður um þau mál --- þá er ég að tala um stjórnarandstæðinga --- að stórslys yrði ef eignarhald á fjármálastofnunum kæmist á komandi árum í hendur sömu aðila og þegar ráða á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins í gegnum stór og öflug fákeppnis- og einokunarfyrirtæki. Þessu höfðu mjög margir áhyggjur af og við í stjórnarandstöðunni vildum t.d. reyna að koma böndum á það eins og hægt væri, þó maður viti auðvitað hvernig eftirmarkaður getur virkað, að sett yrðu í lögin sjálf, t.d. um Landsbankann og Búnaðarbankann, ákvæði sem tryggði hámarkshlut eða hámarkseignaraðild hver um sig og mig minnir að það hafi verið um 5%. Ég held að það sé að koma í ljós og hafi verið að koma í ljós á þessum dögum og síðustu vikum (Gripið fram í.) að við höfðum alveg rétt fyrir okkur í þessu efni. Ég heyri að hæstv. ráðherra, sem ég fagna mjög að skuli hafa tíma til að vera við umræðuna, telji að það séu allir undir 5% enn þá. Hann hefur tækifæri til þess að skýra þau sjónarmið í þessari umræðu en ég man ekki betur en að hafa bæði lesið og heyrt að því er varðar Fjárfestingarbankann að t.d. varðandi Kaupþing þá sé 9% eignarhluti, hlutabréf, í þeirra höndum sem samsvarar 14% í heildaratkvæðamagni og það gefur möguleika á stjórnarmanni. Ég man ekki betur en að hafa séð og lesið að verðbréfasjóður Búnaðarbankans ætti orðið 5--6% í Fjárfestingarbankanum. Það er mjög skrítið, herra forseti, þegar maður les nál. minni hlutans, sem ég er vissulega alveg sammála, og rökstuðningurinn mjög markviss um að full ástæða sé til að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram, með leyfi forseta, og ætla ég að vitna í það:

,,Minni hlutinn tók málið upp í nefndinni og óskaði upplýsinga um það.`` --- Þ.e. um þessa dreifðu eignaraðild. --- ,,Þá kom m.a. fram hjá embættismönnum viðskiptaráðuneytis að hluthafaskrá í Fjárfestingarbankanum lægi ekki nákvæmlega fyrir fyrr en við greiðslu hlutafjárins, þ.e. eftir 4. desember.``

Svo mikið liggur á að afgreiða þetta mál, herra forseti, án þess að fá þessar upplýsingar inn í nefndina að 3. desember skrifar meiri hlutinn undir nál. og afgreiðir bara málið inn í þingið aftur úr nefndinni og gat ekki einu sinni beðið í einn dag eftir að fá þessar upplýsingar frá hluthafaskrá í Fjárfestingarbankanum sem skiptir verulegu máli við mat á stöðunni þegar Alþingi er að heimila sölu á öllu hlutafé í Fjárfestingarbankanum. Nú hygg ég að hæstv. viðskrh. hafi þessar upplýsingar undir höndum ef ekki formaður efh.- og viðskn. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar nákvæmlega um stöðuna, hvernig hún lítur út að því er þetta varðar. Hver er staðan nákvæmlega í dag að því er varðar eignarhlutdeild þeirra sem stærst eiga í þessum banka og einnig hver var niðurstaðan að því er varðar Búnaðarbankann og Landsbankann?

Herra forseti. Það er algerlega útilokað að ætla sér að afgreiða þetta mál út án þess að þessar upplýsingar liggi fyrir. Það má vel vera og ég ætla ekkert að fullyrða um að það geti eitthvað breytt stöðunni að efh.- og viðskn. sjái ástæðu til þess að taka málið aftur til skoðunar á milli 2. og 3. umr. um málið. Ég held að það sé ekkert ofsögum sagt sem sagt er í nál. minni hlutans að salan á 49% hlutafjár í bankanum hafi verið verulegt klúður. Þar er auðvitað minnst á það sem hefur gerst, þ.e. þetta kapphlaup með kennitölurnar.

Það er alveg hárrétt sem hér er nefnt að þetta dæmi um sölu hlutafjár Fjárfestingarbankans er einn kafli í sögu einkavinavæðingar núverandi ríkisstjórnar. Þar er af mörgu að taka. --- Hæstv. ráðherra hlær úr sínum virðulega ráðherrastól --- en ég vil þá minna á, herra forseti, að þessi hæstv. ráðherra var óbreyttur þingmaður fyrir nokkrum árum, árið 1992, þá var honum ekki hlátur í hug í þessum ræðustól, herra forseti, þegar hann skammaðist mikið út í þáverandi ríkisstjórn og taldi hana vera að halda þannig á málum varðandi einkavæðingu að það væri verið að brjóta upp bankakerfið með þeim hætti að tryggt væri að molarnir pössuðu vel í ginið á kolkrabbanum. Þá var hæstv. ráðherra ekki hlátur í huga. Nú hlær hann úr sínum virðulega ráðherrastól þegar hann er með málið í höndum sínum og hefur stuðlað að því að brytja bankana þannig að þeir passi í ginið á kolkrabbanum. (VE: Honum fer nú betur að brosa.) Ég get út af fyrir sig verið sammála hv. formanni efh.- og viðskn. um það að honum fer vel að brosa en mér finnst ekkert tilefni til þess að hæstv. ráðherra sé að brosa mikið yfir þessu máli. Það sem mér þykir verra, af því að ég get alveg liðið ráðherra það, og það getur komið fyrir besta fólk að misstíga sig, en þegar hæstv. ráðherra hefur þessa reynslu fyrir framan sig að fyrir framan nefið á honum séu stórir fjárfestingaraðilar á góðri leið með að sölsa undir sig bankakerfið, að ráðherrann sitji bara rólegur. Sitji bara rólegur og ætli ekkert að aðhafast. (Gripið fram í: Jú, jú.) Biður bara um frekari heimild til að selja frekari mola í ginið á kolkrabbanum og væntanlega á undirverði eins og gerst hefur varðandi þau 49% sem þegar eru seld.

[14:15]

Það er auðvitað nauðsynlegt að fara mjög vandlega yfir þetta mál og ég vil segja það, herra forseti, að ekki er ég með málflutningi mínum úr þessum ræðustól, eða áður þegar ég hef verið að gagnrýna söluna á hlutabréfum í bönkunum, að ásaka það fólk sem hefur verið að lána kennitölur sínar vegna þess að því var boðinn skjótfenginn gróði, mikill ábati og hagnaður ef það einungis lánaði kennitölur sínar. Það þurfti ekki einu sinni að leggja út peninga sjálft fyrir hlutafé heldur gæti það einungis lánað kennitölu sína og fengið yfir bankaborðið tugi þúsunda í gróða. Auðvitað er það ekkert furðulegt að 90 þúsund manns hafi farið af stað (Gripið fram í: Einkavinirnir 90 þúsund.) Já, einkavinirnir, og lánað sínar kennitölur til að fá gróða. Fyrst var þeim boðið í stórri auglýsingu að af þessu væri verulegur ábati. ,,Viltu hagnast? Íslandsbanki gerir tilboð. Þú þarft ekkert að leggja út, bara sækir um 500 þús. kr. hlut á nafnverði á genginu 2,15, og leggur bara inn miða,`` --- sem fylgdi með í Morgunblaðinu að ég held --- ,,sem þú klippir út og þegar þú gengur fram hjá bankanum þínum leggur þú þessa umsókn inn og síðan eru einhverjar þúsundir settar inn á reikning þinn í bankanum.`` Auðvitað er þetta tilboð freistandi fyrir ... (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra er mjög mál að komast í ræðustólinn en ég er bara alls ekki búin. Hæstv. ráðherra verður að sitja á sér í einhvern tíma enn og hann má vel vera með frammíköll, það er mér að meinalausu, herra forseti. En hvað græddi fólk á þessu? Einhvers staðar sá ég í sjónvarpinu að það hefðu verið 1.100 kr. þegar búið var að taka af þessu skatt.

Það kom fram hér að farið hefði verið í kennitölusafnanir í framhaldsskóla, elliheimili og fleiri stofnanir, þá heyrði ég, af því að elliheimilin eru nefnd, að þetta gæti haft áhrif, þ.e. ef fólk fengi þarna einhvern smávegis hagnað ætti að skerða lífeyri og bætur þessa fólks. Þegar búið er að borga skattana og skerða bæturnar, þá er nú ekki mikill hagnaður eftir. Vegna þess að staðreynd málsins er sú að það eru ekki þeir sem lánuðu kennitölur sínar sem voru að græða mikið á þessu heldur hinir fjársterku aðilar, stundum nefndur kolkrabbinn, smokkfiskurinn, fjölskyldurnar fjórtán. Það er það sem hefur verið að gerast á undanförnum missirum, að sífellt stærri hluti af verðmætum eignum þessarar þjóðar er að færast á fárra manna hendur.

Þegar við nefnum gróðann í þessu sambandi var nefnt að ein kennitala, líka hjá barni --- var ekki fengin lánuð kennitala hjá eins dags gömlu barni? --- það gat fengið 160 þús. þús. kr. Það var sett fyrir framan fólkið. Í bréfi sem ég fékk var a.m.k. verið að tala um 100 þús. kr., og kennitalan þegar upp var staðið var 160 þús. kr., t.d. í Fjárfestingarbankanum. En fólkið sem lánaði kennitölu sína og lét ekki út neina peninga, tók hagnaðinn bara yfir borðið, fékk 18 þús. kr. af þessum 160. En þeir fjársterku aðilar sem eru að leita eftir því fyrir framan nefið á hæstv. ráðherra að sölsa undir sig bankakerfið gátu fengið þarna 142 þús. í sinn hlut

Það er þetta sem við verðum að hafa í huga og líka það, herra forseti, að það hlýtur að vera eitthvað bogið við þessa sölu. Það hlýtur að leita á hugann og hlýtur að verða að svara því með rökum --- ég tók eftir að hæstv. ráðherra kom sér hjá því að svara þeirri spurningu skýrt og skilmerkilega við utandagskrárumræðuna, herra forseti, því mér fannst ráðherrann vera með útúrsnúning þá --- getur ekki verið að bankarnir hafi verið seldir á of lágu gengi? Á undirverði? Og þegar upp er staðið, að þeir 2/3 þjóðarinnar sem ekki tóku þátt í þessu kapphlaupi og ríkissjóður séu þeir tveir stóru aðilar sem hafi tapað á öllu saman, af því að bankarnir hafi verið seldir langt undir sannvirði? Ég hygg að eitthvað sé til í því.

Sama dag og útboðið fór af stað í Búnaðarbankanum var rætt um það að bankinn, sem var metinn á 8,6 milljarða, væri orðinn að verðmæti 10 milljarðar. Ég held að á einum degi hafi bréfin rokið upp um 25% og á skömmum tíma ruku þau líka upp í Fjárfestingarbankanum um 30%. Þegar upp er staðið held ég að það skipti ekki tugum milljóna sem ríkissjóður og skattgreiðendur hafa tapað á þessu, ekki hundruðum milljóna heldur séum við frekar að tala um einhverja milljarða sem tapast hafi á þessu.

Við utandagskrárumræðuna bar ráðherrann því við að vissulega hefði verið hægt að fá meira fyrir bankann ef ríkisstjórnin hefði ekki sett sér markmið um dreifða eignaraðild. Ráðherrann nefndi, herra forseti, að ef þetta hefði farið í útboð og stórir aðilar hefðu komið inn í málið hefði kannski verið hægt að fá 30--50% meira fyrir þessa hluti í bankanum en raun varð á og nefndi að algengt væri að ef það væri kannski 30--50% eignarhlutur sem einn aðili fengi, þá væri hægt að fá miklu meira fyrir bankann og þessi hlutabréf, og nefndi 30--50% í því sambandi. En nú er það viðurkennt og líka af ráðherranum sjálfum að þær leiðir sem voru farnar brjóta gegn markmiðunum um dreifða eignaraðild og að nú þegar er kominn hlutur að heildaratkvæðamagni í hlut eins aðila, Kaupþings. Það var sú viðmiðun sem ráðherrann nefndi sem gæfi möguleika á að fá miklu meira fyrir bankann en raunin varð á.

Hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi einnig í máli sínu að það stóðu ekki allir jafnt að vígi í sambandi við að geta lánað kennitölu sína og fengið skjótfenginn gróða, a.m.k. ekki fyrst í stað vegna þess að þá voru leynibréf í gangi og pukrað mikið af hálfu verðbréfafyrirtækja. Þar voru starfsmennirnir fengnir til að ná til fjölskyldumeðlima og vina sem þeir treystu til að koma með kennitölur þeirra og hver kennitala var u.þ.b. 50--100 þús. kr. virði. Það sátu því ekki allir landsmenn við sama borð í þessu máli. Það má þó segja Íslandsbanka til hróss að hann auglýsti þó kennitölufárið. Hann splæsti á þetta tveimur heilsíðuauglýsingum í Morgunblaðinu þar sem öllum var boðið að gera tilboð, sem nú er farið að kalla því fína orði ,,framvirk viðskipti``, er það ekki, herra forseti? Það er fínt heiti yfir brask að mínu viti vegna þess að þetta er auðvitað ekkert annað en brask hjá þessum verðbréfafyrirtækjum. Vissulega er ekkert við því að segja að fólk taki þátt í þessu. En ég býst við að það séu ekki allir sem lánuðu kennitölur sínar og fengu 1.000--1.200 kr. fyrir og kannski upp í 18 þús. sem geri sér grein fyrir áhrifunum af þessu, sem eru tvíþætt a.m.k., þ.e. tap skattgreiðenda og ríkissjóðs, og að með þessari aðferð er verið að stuðla að því að bankakerfið komist fyrr í hendur fjársterkra aðila.

Þess vegna hefði ég haldið, herra forseti, að ráðherrann hefði lagt sitt af mörkum til þess að setja einhverjar skorður við þeirri heimild sem hann er að biðja um, að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbankanum og að Alþingi hefði átt að beita sér fyrir slíku. Mér finnst að meiri hluti efh.- og viðskn. geri það ekki. Og fari svo að tillögu minni hlutans verði hafnað við atkvæðagreiðslu, að vísa málinu til ríkisstjórninnar, þá hlýtur að koma til álita við 3. umr. málsins að flytja slíkar brtt.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað liggi svona mikið á að setja þetta mál í forgang í þinginu þegar örfáir dagar eru til jóla. Af hverju eru ekki önnur og brýnni mál tekin á dagskrá þannig að ráðrúm gefist til þess, þar til þing kemur saman aftur, að meta reynsluna af sölunni í þessum bönkum? Fá þá upp á borðið 19. janúar þegar þing kemur saman aftur hver reynslan raunverulega er, hve dreifð þessi eignaraðild hefur verið, hve mikið þeim 12 þúsund sem keyptu hlutabréf í Landsbankanum hefur fækkað, hve mikið þessum 90 þúsund í Fjárfestingarbankanum og Búnaðarbankanum hefur fækkað? Ég held að það liggi ekki nokkurn skapaðan hlut á þessu, herra forseti. Við gætum gert miklu betur við tímann og tekið fyrir önnur brýnni mál frekar en að ræða þetta mál í ræðustól. En úr því að ríkisstjórnin velur þann kost að taka þetta mál fyrir, þá verður ekki hjá því komist að taka það til ítarlegrar umræðu.

[14:30]

Ég nefndi það að setja skorður á eignarhlutinn og stuðla að dreifðri eignaraðild og undir það tekur Morgunblaðið nýlega --- ég er ekki með dagsetninguna en þetta er leiðari sem birtist nýlega í Morgunblaðinu --- og leiðir þar fram sér til halds og trausts ekki ómerkari mann en hæstv. forsrh. um að e.t.v. sé nauðsynlegt að setja skorður við hámarkshlut og eignaraðild í bönkunum. Ég ætla að fara yfir þennan leiðara næst í máli mínu, herra forseti.

Í leiðaranum er fyrst farið í staðreyndir málsins, hvað hafi gengið á hér á verðbréfamarkaðnum og síðan er kveðinn upp sá dómur í blaði allra landsmanna --- og ég sé að formaður efh.- og viðskn. sperrir eyrun eins og hann gerir alltaf þegar verið er að lesa upp úr Morgunblaðinu --- en þar segir (Gripið fram í.) um það sem hefur verið að gerast, orðrétt, herra forseti:

,,Þetta þýðir að markmið stjórnvalda um dreifða eignaraðild eru að renna út í sandinn.``

Þetta er dómurinn í Morgunblaðinu, að markmið ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild séu að renna út í sandinn.

Síðan segir í leiðaranum:

,,Í samtali við Morgunblaðið í byrjun ágúst sl. lýsti Davíð Oddsson forsætisráðherra þeirri skoðun að mikilvægt væri að eignarhaldi á bönkum yrði dreift og það tryggt að bankarnir væru hlutlausir gagnvart viðskiptalífinu.``

Hafa bankarnir, þ.e. þeir sem eru enn þá alla vega í eign ríkisins, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, verið alveg hlutlausir í kapphlaupinu um kennitölurnar sem gengur gegn markmiði ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild eins og hæstv. ráðherra lét hafa eftir sér í einum fjölmiðli? Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. sagði í ágúst að það þarf að tryggja dreifða eignaraðild og tryggja að bankarnir séu hlutlausir gagnvart viðskiptalífinu. Síðan segir orðrétt, haft eftir forsrh.:

,,Hann kvaðst telja, að það gæti alveg dugað bankastofnun að stærstu eignaraðilarnir sem kæmu til með að hafa leiðbeinandi forustu um reksturinn, ættu eignarhlut á bilinu 3 til 8%.

Ég styð alveg neðri mörkin sem hæstv. forsrh. nefnir hér, að við reynum að sameinast um það, fari svo að tillaga minni hlutans verði felld, að við setjum skorður við eignaraðild og nemum staðar við 3% eins og ábending forsrh. var um í ágústmánuði. Síðan segir áfram orðrétt, haft eftir forsrh.:

,,Hann teldi hins vegar ekki æskilegt að einn aðili eða skyldir réðu 30 til 40% eignarhlut í bankastofnun. Það væri engin nauðsyn á eigendum með stærri eignarhlut og við slíkar aðstæður gætu eignaraðilar með 2% til 3% eignarhlut haft veruleg áhrif á reksturinn, auk þess sem þeir væru líklegastir til þess að knýja á um að arðsemissjónarmið réðu ferðinni. Í sama samtali sagði Davíð Oddsson að þótt það hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn, teldi hann fyllilega koma til álita að tryggja með lagasetningu að eignarhaldi á bönkunum, þegar ríkið sleppti af þeim hendinni, yrði dreift.``

Síðan segir í leiðaranum:

,,Sparisjóðirnir hafa þegar eignast stóran hlut í FBA og augljóst að Íslandsbanki stefnir að því að styrkja stöðu sína sem stór eignaraðili í Búnaðarbankanum. Í ljósi þessarar þróunar er æskilegt að ríkisstjórn og Alþingi fjalli um þær hugmyndir um lagasetningu, sem forsætisráðherra setti fram síðla sumars.

Það verður ekki almennur stuðningur við það í samfélagi okkar að ríkisbankarnir komist í eigu fárra stórra aðila. Það eru heldur engin rök til þess. Með hlutafjárútboðinu í þremur ríkisbönkum á þessu ári hefur fengist verðmæt reynsla, sem hægt er að byggja á við lagasetningu af því tagi, sem bersýnilega er nauðsynlegt.``

Það á greinilega ekkert að hlusta á þetta, hvorki okkur í stjórnarandstöðunni né blað allra landsmanna, né aðvörunarorð forsrh. sem komu fram hér fyrir nokkrum vikum. Hæstv. viðskrh. virðist frekar hlusta eftir verðbréfasölunum sjálfum og því sem fram kemur í Viðskiptablaðinu þar sem hæstv. ráðherra er varaður við því að setja einhverjar skorður á eignarhald manna í þessum ríkiseigum. Þar á allt að vera frjálst. En þetta, eins og svo margt annað ...

(Forseti (ÓE): Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort langt sé eftir af ræðunni.)

Já, ég býst ekki við að ég ljúki henni alveg á næstu mínútum.

(Forseti (ÓE): Þá vildi forseti biðja hv. ræðumann um að fresta ræðu sinni þegar vel stendur á.)

Ég get frestað henni hér og nú, herra forseti.

(Forseti (ÓE): Takk fyrir.)