Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:48:38 (2509)

1998-12-17 14:48:38# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það er dapurlegt að til þessara atburða skuli hafa þurft að koma. Ljóst er að spenna hefur magnast í samskiptum Íraksstjórnar og Bandaríkjamanna síðan 9. desember sl. þegar Írakar meinuðu eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna aðgang að svæðum þar sem grunur lék á að vopnabúnað væri að finna.

Allt sl. ár hafa stjórnvöld í Írak freistað þess að komast fram hjá eftirliti Sameinuðu þjóðanna og hindra það. Ljóst er að þeir hafa notfært sér þau vandræði sem forseti Bandaríkjanna hefur ratað í til þess að reyna á hversu fast yrði staðið við samþykktir Sameinuðu þjóðanna um vopnaeftirlit.

Nú liggur það fyrir, að mati formanns eftirlitsnefndarinnar, að starf eftirlitssveita Sameinuðu þjóðanna sé með öllu gagnslaust við núverandi aðstæður. Hann telur að Saddam Hussein ætli sér ekki að standa við þær skuldbindingar sem hann hefur undirgengist.

Ég tek eftir því að í þessari umræðu vilja menn fría harðstjórann í Írak við alla ábyrgð á atburðarásinni. Til hvers eru þá samþykktir og ályktanir Sameinuðu þjóðanna ef harðstjórinn í Írak þarf ekki, að mati þingmanna hér, að standa við sinn hluta af samningunum? Til hvers eru þá slíkar ályktanir og hver ber ábyrgð í málinu?

Tímasetning atburðanna er ekki í höndum Bandaríkjamanna einna eins og hér hefur verið ýjað að. Hluti af atburðarásinni hefur í mörgum tilfellum verið ákveðinn af Saddam Hussein og utanríkisráðherra Írak. Við skulum minnast þess að í júní sl. hótuðu Írakar því að setja á svið atburði, svokallað kreppuástand eins og þeir orðuðu það, ef viðskiptabanni yrði ekki aflétt í lok ársins.