Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:58:18 (2513)

1998-12-17 14:58:18# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Í skjóli nætur eru gerðar loftárásir á Írak, á land sem hefur allan þennan áratug búið við viðskiptabann og refsiaðgerðir stórveldanna. Refsiaðgerðirnar stangast á við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa valdið ómældum erfiðleikum, hungursneyð og þrengingum í landinu. Þær hafa orðið þess valdandi að hátt á aðra milljón manna hefur látið lífið samkvæmt mati mannréttindasamtaka og fulltrúa stofnana Sameinuðu þjóðanna. Um þetta er ekki deilt. Þetta er fleira fólk en látið hefur lífið í öllum átökunum í Júgóslavíu á undanförnum árum. Þetta er þrisvar sinnum fleira fólk en lét lífið í árásum Bandaríkjamanna á Nagasaki og Hiroshima á sínum tíma.

Nú gera öflugustu herveldi jarðarinnar loftárásir á varnarlaust fólk sem ekki hefur einu sinni burði til loftvarna. Á þessu segist utanrrh. Íslands hafa skilning. Hann gengur jafnvel lengra og lýsir yfir stuðningi við þessar aðgerðir.

Í ágúst árið 1990 skipaði Saddam Hussein her sínum að ráðast inn í Kúveit. Hann sagði: Þetta er okkar réttur, okkar land. Þetta land tilheyrði áður Írak og á þeirri forsendu fór hann myrðandi og með valdi. Núna segja Bandaríkjamenn nákvæmlega það sama: Okkar hagsmunir eru í húfi, þetta er okkar réttur. Þetta er hins vegar ekki þeirra réttur. Þetta er brot á þjóðarétti, þetta stríðir gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna og grundvallarsáttmála mannkynsins um mannréttindi.

Hagsmunir Bandaríkjamanna eru af margvíslegum toga. Olíuverð er lægra en í langan tíma og ef viðskiptabanni yrði aflétt af Írak yrðu efnahagslegir hagsmunir auðhringa í iðnaðarríkjum Vesturlanda í stórhættu. Á þessum hagsmunum hefur íslenska ríkisstjórnin skilning. Þetta mál er íslenskt innanríkismál. Þetta er mál sem kemur okkur öllum við.