Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 15:01:00 (2514)

1998-12-17 15:01:00# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég harma þá alvarlegu atburði sem orðið hafa og það er fráleitt að við Íslendingar getum sýnt þeim nokkurn skilning, hvað þá tekið undir þá skoðun utanrrh. að um rétta ákvörðun hafi verið að ræða. Enda er þetta vont mál, vont mál fyrir Sameinuðu þjóðirnar, alþjóðasamfélagið er í miklum ágreiningi um málið og þjóðir og leiðtoga þeirra greinir á um tilgang og mögulegan árangur aðgerða af þessu tagi.

Við, vopnlaus þjóð sem telur sig bæði friðsama og réttsýna, getum ekki annað en harmað það og mótmælt því að enn skuli óbreyttir borgarar, börn og gamalmenni í Írak þurfa að líða fyrir aðgerðir sem stefnt er gegn Saddam Hussein, aðgerðir sem eru illa rökstuddar og enginn sér fyrir hvað muni leiða af sér og alþjóðasamfélagið er í ágreiningi um, aðgerðir sem munu treysta stöðu Saddams Husseins og enn fylkja þjóðinni að baki honum gegn sameiginlegum óvini, aðgerðir sem fyrst og fremst munu skaða saklaust fólk.

Herra forseti. Við viljum vera vinir Bandaríkjamanna og Breta. En vinur er sá er til vamms segir og það á við í þessu máli.