Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 15:02:30 (2515)

1998-12-17 15:02:30# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), SP
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Vissulega ber að harma að grípa hafi þurft til hernaðaraðgerða gegn stjórn Saddams Husseins líkt og ávallt ber að harma beitingu hervalds. Hins vegar verður að leggja áherslu á að eingöngu er við Saddam Hussein og stjórn hans að sakast í þessum efnum. Ítrekað hefur stjórn hans virt fyrirmæli öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að vettugi. Ítrekað hafa vesturveldin aðvarað hann. Vopnaeftirlitssveitir Sameinuðu þjóðanna hafa þegar eytt gífurlegu magni eldflauga, efnavopna, eiturefna og raunar heilli lífefnavopnaverksmiðju í Írak. Ítrekað hefur þeim hins vegar verið neitað um aðgang að meintum geymslustöðum slíkra vopna þvert á fyrirmæli öryggisráðsins og þvert á eigin samninga við t.d. Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Í fréttatilkynningu utanrrn. í dag er einmitt bent á að almenningur í Írak hafi liðið miklar þjáningar vegna árásarstefnu og mannréttindabrota Saddams Husseins og valdaklíku hans. Það er fyrir löngu kominn tími til að þessum þjáningum linni. Sameinuðu þjóðirnir hafa gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til að tryggja mannúðaraðstoð til almennings í Írak, m.a. með því að veita Íraksstjórn undanþágu frá viðskiptabanni til að selja mikið magn af olíu til að greiða fyrir matvæli handa almenningi. Ljóst er að alræðisstjórnin hirðir lítt um hag almennings í landinu.

Virðulegi forseti. Stjórn Saddams Husseins er ógnun við öryggi í Miðausturlöndum og þar með ógnun við öryggi í heiminum. Vesturlönd geta ekki liðið slíkum stjórnvöldum að búa yfir gereyðingarvopnum. Sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu hlýtur Ísland að styðja aðgerðir Bandaríkjanna og Bretlands sem miða að því að tryggja öryggi okkar allra.