Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 15:06:55 (2517)

1998-12-17 15:06:55# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans og fyrir þessa umræðu. Það ber að harma, sagði hæstv. utanrrh., að hernaðaraðgerðir hafa hafist gegn Saddam Hussein. Þannig hóf hæstv. utanrrh. mál sitt.

Hér er um mikinn misskilning að ræða. Þessar hernaðaraðgerðir eru ekki gegn Saddam Hussein. Í sjónvarpsviðtali í nótt sagði yfirhershöfðingi Bandaríkjahers endurtekið: Árásunum er ekki beint að Saddam Hussein. Auðvitað ekki. Þá væri um enn eitt brot á alþjóðalögum að ræða ef þjóðhöfðingi Íraks væri sérstaklega skortmark þannig að a.m.k. hvað yfirlýsingar snertir má ekki segja það.

Þá kemur auðvitað upp spurningin: Hvað svo og til hvers? Hverju ætla menn að ná fram ef það má ekki vera og er ekki yfirlýstur tilgangur að steypa þessari ríkisstjórn og koma á nýrri? Það er mat flestra stjórnmálaskýrenda að þetta muni ef eitthvað er styrkja enn í sessi harðstjórnina í Írak. En fórnarlömbin, þolendurnir, við vitum hverjir þeir eru. Það eru hinir sömu og hafa liðið fyrir átta ára viðskiptabann.

Það er vissulega rétt að árangur hafi orðið af vopnaeftirlitinu. En það er mat flestra hernaðarsérfræðinga að hernaðarmáttur Íraks, a.m.k. utan eigin landamæra, sé orðinn hverfandi vegna þess að landið er ein rjúkandi rúst og það eru miklu meiri herveldi allt í kringum Írak sem ekkert vopnaeftirlit fer fram í. Íranir eiga miklu meira af efnavopnum. Sýrlendingar eiga miklu meira af efnavopnum. Ísarelar eiga yfir 100 kjarnorkusprengjur. Það stafar engin ógn af þeim, er það? Nei. Á þetta land sem búið er að sprengja aftur á steinaldarstig þarf að gera loftárásir að næturþeli með öflugustu vígtólum sögunnar og henda þeim sprengjum á saklaust fólk, enda eru fórnarlömbin, þau sem þegar eru fallin, óbreyttir borgarar og tugir þeirra liggja nú særðir á allslausum sjúkrahúsum í Bagdad.

Það er ömurlegt, herra forseti, að heyra málflutning íslenskra ráðamanna. Á þessum degi fyrirverður maður sig fyrir þau stjórnvöld sem fara með völdin í landinu, að vísu ekki þetta eina sinn.