Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 15:47:26 (2524)

1998-12-17 15:47:26# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil mótmæla því og vona að hæstv. forseti taki undir það að ég var í engu málþófi áðan þótt ég hafi kannski talað í upp undir 60 mínútur þar sem ég var að færa rök fyrir stóru máli sem verið er að keyra í gegnum þingið.

Það er alveg ljóst að hv. þm. líður ekkert vel. Hann veit alveg að hann er að færa eigur skattgreiðenda á undirverði til einkavina sinna og Sjálfstfl., kolkrabbans og fjölskyldnanna fjórtán. (VE: 90 þúsund.) Ég er ekkert að agnúast út í þá 90 þúsund sem sáu ástæðu til að reyna að fá einhvern smáágóða af kennitölum sínum. En ég er að agnúast út í að þingið skuli ekki stuðla að því á einhvern hátt að setja skorður við því að þessum leik verði haldið áfram.

Herra forseti. Hv. þm. sýnir þá óvirðingu þegar hann hefur verið með andsvar, að hlaupa hér út úr salnum og hlusta ekki á það sem hér er verið að ræða. (VE: Ég er í salnum.) Þegar hv. þm. talar um að 90 þúsund aðilar eigi núna Fjárfestingarbankann skora ég á hann hér og nú (VE: Búnaðarbankann, sagði ég.) já, Búnaðarbankann, að hann sýni fram á það með rökum hver staðan er núna, hve þessum aðilum hefur fækkað eftir að útboðinu er lokið.

Miðað við málflutning hv. þm., herra forseti, skuldar hann þinginu að málið verði tekið milli 2. og 3. umr. aftur inn í nefndina og það komi fram framhaldsnál. þar sem hann sýnir fram á það svart á hvítu, hvernig þessi dreifða eignaraðild er. Ekki er hægt að bjóða þinginu upp á það að málið sé afgreitt með þessum hætti. Ég mun þurfa að hafa langt mál um þetta frv. við 3. umr. ef hv. þm. fer ekki að því sem óskað hefur verið eftir.