Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 16:08:50 (2529)

1998-12-17 16:08:50# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[16:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hægt og bítandi kemur þetta fram hjá hæstv. ráðherra. Hann hefur augljóslega betri upplýsingar í sínum fórum en hann vill vera láta. Og nú vantar bara herslumuninn, að hann leggi fram þennan lista nákvæmlega þannig að maður geti séð það svart á hvítu. Ég vantreysti ekki tölum hans en hann fer hugsanlega með þær eftir minni. Ég sé ekki vandamálið. Af hverju í veröldinni er ekki hægt að leggja þetta hér fram á borð þingmanna sem fskj. eða dreifimiða? Ég skal sjá um að dreifa honum fyrir hæstv. ráðherra.

Kjarni málsins er sá, án þess að ég dragi í efa tölur ráðherrans, að þessi eftirmarkaður er í fullum gangi. Það sama á við um Búnaðarbankann. Hæstv. ráðherra nefndi raunar að það væru 92 þúsund eigendur hlutabréfa í Búnaðarbankanum. Ég sá það í einhverju blaði að þeir væru nú í kringum 60 þúsund talsins, ekki 92 þúsund því að 30 þúsund hefðu þegar notað hinn þróaða, framvirka eftirmarkað og selt kauprétt sinn. Þeir teljast nú vart með sem eigendur. Eigendurnir eru því 60 þúsund.

Nú væri fróðlegt að fá að vita, þegar hækkunin á bréfunum frá upphaflegri sölu ríkisins upp á 2,15, sem er 26% hækkun, hve margir af þessum 60 þúsund hafa þegar notað hinn raunverulega eftirmarkað og losað sig við bréfin, hver talan er í dag. Mér kæmi ekki á óvart þó að sú tala væri einhvers staðar í kringum 50 þúsund og færi lækkandi. En það kemur á daginn.

Ég segi, virðulegi forseti, að mér finnst málið vanbúið. Ég spyr: Liggur lífið á? Erum við í einhverju svakalegu tímahraki með þetta? Getum við ekki tekið okkur þann tíma sem þarf í þetta eftir hátíðarnar? Ég er ekkert upptekinn og hef nógan tíma til þess. Hvað liggur svona á? Er peningahallæri hjá ríkissjóði? Hvað er málið?

Ég veit að það er tímaskortur hér.

(Forseti (ÓE): Já, það er rétt hjá hv. þm.)