Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 16:16:41 (2532)

1998-12-17 16:16:41# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri fróðlegt að heyra það hjá hv. þm. hversu dreifð eignaraðildin þarf að verða til þess að geta talist dreifð. Í annan stað væri spurning af hverju hv. þm. rifjar ekki upp fyrri tillögu minni hlutans í efh.- og viðskn. þegar Fjárfestingarbankinn var stofnaður um að selja eða láta sjóðina renna inn í þá banka sem fyrir eru, Búnaðarbankann, Landsbankann og Íslandsbanka. Telur hv. þm. t.d. að eignaraðildin að fjármagnskerfinu væri dreifðari ef sú leið hefði verið farin?

Ég held nefnilega að hv. þm. missi algerlega sjónar á aðalatriði þessa máls, sem er þetta, að eignaraðildin að Fjárfestingarbankanum er afar dreifð. Eignaraðildin að Landsbankanum er afar dreifð. Búnaðarbankinn verður fjölmennasta hlutafélag landsins eftir þessar breytingar. Það sem málið snýst um og er aðalatriði þess er að samkeppni á fjármagnsmarkaðnum hefur aukist. Vaxtamunur í bankakerfinu hefur minnkað. Hagræðing í bankakerfinu hefur aukist. Kjör lántakenda í bankakerfinu hafa batnað. Kjör innlánseigenda í bankakerfinu hafa batnað.

Það hefur allt saman batnað og yfir þessu virðist hv. þm. bara vera hágrátandi.