Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 18:40:44 (2543)

1998-12-17 18:40:44# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[18:40]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hefði nú mátt vera mikið styttri vegna þess að flest af því sem hv. þm. sagði má lesa í þingtíðindum á netinu frá 1. umr. og í mörgum öðrum ræðum um svipuð efni sem hér hafa verið haldnar.

Þó er eitt sem ég hjó eftir í ræðu hv. þm. að hann er farinn að viðurkenna að honum hafi orðið á mistök í málflutningi þegar Fjárfestingarbanki atvinnulífsins var stofnaður. Enda ekkert skrýtið vegna þess að þjóðin er að fá fjármuni fyrir Fjárfestingarbankann sem stjórnarandstaðan vildi á sínum tíma henda inn í bankakerfið og taldi að væri einskis virði, þá er þjóðin að fá fyrir hann núna á bilinu 12--13 milljarða kr. til að lækka sínar skuldir, lækka vaxtakostnað og nota fjármuni inn í velferðarkerfið. En sömu aðilar sem mest tala um að berjast fyrir velferðarkerfinu svona í orði kveðnu eru þeir sem vildu henda þessum eignum ríkisins bara inn í ríkisviðskiptabankana.

Eitt nýtt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni var að hann taldi að starfsfólkið hefði alveg gleymst. Þetta má kalla nýtt þegar farið er að fenna örlítið yfir það hvernig hið nána samráð var sem við höfðum við starfsfólkið þegar við vorum að breyta formi ríkisviðskiptabankanna, en sérstakar yfirlýsingar komu frá starfsfólki um það hversu náið og gott samstarfið hefði verið. Fyrir utan þá aðstoð sem við fengum við allan þann undirbúning frá starfsfólki bæði í Búnaðarbanka og Landsbanka, sem er þakkarverður, höfðum við það líka mjög ríkulega í huga þegar við vorum að selja þessa eignarhluti með því að auka hlutafé bæði Landsbanka og Búnaðarbanka, að þá var starfsfólkinu sérstaklega boðið á sérkjörum kaup í þessum fyrirtækjum.

Ef við miðum við gengið á bréfum þessa hóps starfsmanna, sem fékk þau á sérkjörum í Búnaðarbankanum og Landsbankanum þegar útboðið fór fram, við það gengi sem þetta fólk gæti selt bréfin á í dag væri hver einstaklingur að fá í sinn vasa á bilinu 400--450 þús. kr. Og er það ekki býsna góður kaupauki núna í desembermánuði rétt fyrir jólin? Eða er það svo, herra forseti, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sjái ofsjónum yfir því að þessi leið skuli hafa verið farin?

En að starfsfólkið hafi gleymst --- ef málflutningur hv. þm. er allur í þessa veru þá gef ég ekki mikið fyrir hann.