Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 18:45:44 (2545)

1998-12-17 18:45:44# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[18:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað veit hv. þm. miklu betur, þ.e. að við starfsfólk beggja viðskiptabankanna, bæði Landsbanka og Búnaðarbanka, var haft mjög náið samstarf við undirbúning formbreytingarinnar. Ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var á sínum tíma að reyna að finna ýmsa snögga bletti á því samstarfi með ýmsum brögðum. En staðreyndin er nú bara sú að það tókst ekki. Fyrir lágu nefnilega yfirlýsingar frá starfsmönnum beggja bankanna um það hversu náið þetta samstarf hefði verið.

Og að vitna í það í sumar að ekki hafi verið rætt við starfsmennina þegar farið var út í algjörlega óformlegar viðræður við sænska Enskilda bankann eða Búnaðarbankann um hugsanlega sameiningu Íslandsbanka og Búnaðarbanka, þá var það bara einfaldlega svo að engin alvara var í þeim viðræðum sem átti að hafa einhvern undirbúning að frekari ákvörðunum. Hefði komið til þess, og ég sagði það þá strax, kæmi til einhverra alvarlegra viðræðna um þau efni þá yrði auðvitað haft jafnnáið samstarf við starfsfólkið og við höfðum við allan undirbúning málsins.

Þessi málflutningur hjá hv. þm. um að ekki hafi verið haft samstarf við starfsfólk hann dæmir sig því sjálfur af verkunum í gegnum tíðina.