Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:14:15 (2552)

1998-12-17 19:14:15# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:14]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er nú ekki jafnhræddur og ýmsir félagar mínir í stjórnarandstöðunni við sölu hluta úr þeim bönkum sem hér hafa verið til umræðu. Ég hef áður í umræðu um Fjárfestingarbankann gert nokkra grein fyrir skoðunum mínum. Ég tel að sú leið sem menn fóru í upphafi af stað með Landsbankann hafi verið nokkuð farsæl. Og ég get ekki tekið undir það þegar menn segja að bankarnir hafi verið verðlagðir undir raunvirði vegna þess að menn vissu ekki nákvæmlega á hvaða sjó þeir voru að leggja.

[19:15]

Ég held að það sem réði verðlagningu hins opinbera eða þeirra sem fóru með völdin í bönkunum hafi stjórnast af þeim hvötum að menn vildu reyna að ýta undir sem dreifðasta eignaraðild. Ég a.m.k. fyrir mína parta dreg það ekki í efa að það hafi verið raunverulegur vilji hæstv. viðskrh. og raunar ríkisstjórnarinnar allrar að reyna að stefna að sem dreifðastri eignaraðild. Ég vísa í þeim efnum sérstaklega til ummæla og viðtala við hæstv. forsrh. um þessi efni þar sem hann reifaði ýmis atriði sem ýmsir í stjórnarandstöðunni hér í dag, þar á meðal hv. þm. Ágúst Einarsson, hafa einmitt nefnt sem hugsanlegar leiðir til þess að tryggja dreifða eignaraðild.

Þegar menn fara í það að selja hluti úr bönkum og eru að ráðast í það í fyrsta skipti þá renna menn eðlilega blint í sjóinn. Ég taldi sjálfur af minni takmörkuðu þekkingu á virði bankanna að þessi verðlagning, t.d. að því er varðaði Fjárfestingarbankann og líka Landsbankann, væri nokkuð nær réttu lagi. Ég var þeirrar skoðunar að verðlagningin á Búnaðarbankanum hefði verið fullhá. Ég taldi þess vegna að það sem fyrir mönnum vakti með því að fara þessa leið væri að reyna að hvetja sem flesta til kaupanna.

Ég er sannfærður um það að ef hæstv. viðskrh. hefði farið þá leið að bjóða alla hlutina í einum stórum pakka þá hefði hann fengið kannski allt upp undir 70% hærra verð fyrir það sem hefði þá runnið í ríkissjóð. Þarna tel ég að menn hafi verið að velja á milli tveggja leiða, annars vegar að reyna að tryggja sem dreifðasta eignaraðild og stýra því nokkuð í gegnum verðlagningu, og hins vegar að fara þá leið að reyna að afla sem mestra tekna í ríkissjóð og selja þá stærri hluti.

Stærri hlutum fylgja meiri völd. Völdin eru nokkurs virði og menn eru reiðubúnir til þess að borga fé fyrir þau. Þess vegna geta menn ekki bæði hámarkað tekjur ríkisins af sölunni og hins vegar reynt að tryggja sem dreifðasta eignaraðild. Ég var því sammála þeirri leið sem farin var í upphafi, að reyna að haga verðlagningunni þannig að eignaraðildin yrði sem dreifðust.

Ég sá ekki frekar en aðrir fyrir þennan undarlega markað sem má segja að síðan hafi skapast með kennitölukapphlaupinu. Ég þekkti ekki einu sinni hugtakið framvirkur eftirmarkaður fyrr en þetta gerðist. Og mér er ekki kunnugt um að svona hafi gerst áður við einkavæðingu eða sölu á ríkisfyrirtækjum hér á landi eða annars staðar. Menn sáu þetta einfaldlega ekki fyrir. Markaðurinn hins vegar, þar sem samkeppnin ríkir, nýtir sér alltaf út í hörgul þá möguleika sem gefast. Framtakssamir menn sjá leiðir sem opnast svo fremi sem þær eru löglegar. Þetta var lögleg leið sem menn fóru þarna en hún var ekki til eftirbreytni og hún er fordæmanleg af minni hálfu.

Þess vegna finnst mér alveg að það komi til greina að banna hreinlega með lögum framvirkan eftirmarkað af þessu tagi. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Kemur ekki til greina þegar menn ráðast í frekari framkvæmdir á þessu sviði að svo verði gert?

Ég ímynda mér að það sem hafi í rauninni verið að koma fram í dagsljósið með því kapphlaupi sem Íslandsbanki hrinti af stað varðandi kaup á hlutum úr Búnaðarbankanum hafi í rauninni verið fyrsta áhlaup Íslandsbanka og þeirra fjármálaafla sem honum tengjast til þess að ná Búnaðarbankanum undir sig. Áður hafði Íslandsbanki gefið ljóslega til kynna á liðnu sumri að hann vildi kaupa þennan banka. Þá lagðist ég og ýmsir fleiri, stjórnmálamenn og aðrir, gegn því. Ég er ekki þeirrar skoðunar að heppilegt sé að þau fjármálaöfl sem tengjast Íslandsbanka nái annarri mikilvægri og stórri bankastofnun undir sig.

Hæstv. viðskrh. hefur marglýst því yfir að hann sé sömu skoðunar. Hann gerði það með frægum ummælum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur rifjað hér upp í fyrri umræðum um bankamál. Það var á síðasta kjörtímabili. En hann hefur líka, m.a. í svörum við ræðum sem ég hélt við 1. umr. um það mál sem við erum að ræða núna, lýst því yfir að hann telji að það eigi ekki að vera þannig að Íslandsbanki nái öðrum bönkum undir sig. Hann hefur sagt að hann vilji stefna að sem dreifðastri eignaraðild.

Þá spyr ég hæstv. viðskrh., af því að ljóst er að hann, ef hann hefur styrk til að afloknum kosningum, hyggst selja meira úr þessum bönkum: Hvernig ætlar hann þá að finna leið sem þjónar því markmiði sem hann hefur sjálfur lagt fram, að eignaraðild eigi að vera dreifð? Hvernig ætlar hann að tryggja að sú stefna nái fram að ganga eftir að hann hefur séð hvernig málin hafa þróast? Ég fæ ekki séð að það sé hægt með öðru móti en í fyrsta lagi að fara einhverja af eftirtöldum þremur leiðum:

Að banna með lögum framvirkan eftirmarkað eins og hann hefur þróast hér á Íslandi einu landa, að því er ég best veit. Í öðru lagi að lögbinda það að eignarhlutur eins aðila eða skyldra aðila megi aldrei vera meiri en tiltekið hlutfall af heildarhlutafjármagni í viðkomandi banka. Og í þriðja lagi að reyna að binda hlutafjáreign við ákveðið tímaskeið. Það mundi banna eða koma í veg fyrir að þessi framvirki eftirmarkaður yrði til.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Með hvaða ráðum hyggst hann ná þessu fram? Eða í öðru lagi, herra forseti, önnur spurning gæti þá verið, ef hann ætlar ekkert að gera: Hefur hann skipt um skoðun? Í þriðja lagi: Hefur hæstv. viðskrh. íhugað einhverja af þeim leiðum sem hæstv. forsrh. lagði fram sem mögulegar aðferðir til þess að takmarka of stóra hluti í fjármálastofnunum í viðtali við Morgunblaðið í byrjun ágúst í sumar?

Þegar við sáum það gerast að Íslandsbanki reyndi og mistókst að ná undir sig stórum hlut í Búnaðarbanka þá sögðu menn hér í þessum sölum, m.a. hv. þingmenn og félagar mínir úr stjórnarandstöðunni, að þetta sannaði það að bankinn hefði verið undirverðlagður. Ég er ósammála því. Ég tel að bankinn hafi ekki, miðað við veltu hans og önnur fjármálaleg atriði sem ber að hafa í huga þegar menn reyna að meta verð banka, verið of hátt verðlagður. Það sem vakti auðvitað fyrir Íslandsbanka var ekki bara að kaupa hlut heldur völd. Og menn eru reiðubúnir til þess að greiða talsvert fjármagn og hátt verð fyrir völd.

Þeir sem standa að Íslandsbanka eru auðvitað að hugsa til framtíðarinnar og þeir horfa til þess m.a. hvernig Wallenbergfjölskyldan náði ofurtökum á sænsku fjármálalífi einmitt eftir að hún náði stjórn á Skandinaviska Enskilda bankanum, svo ég rifji nú upp dæmi sem hæstv. viðskrh. þekkir vel. Í krafti þess banka hafa stóraukist þau ítök --- og voru þau þó mikil áður --- sem sú fjölskylda hefur í sænsku fjármálalífi. Það er alveg ljóst að ef menn ná undirtökum í fjármálalífi þá eru þeir ekki bara reiðubúnir til þess að greiða fyrir fjármagnið í viðkomandi bankastofnunum sem þeir þannig ná undir sig heldur líka fyrir völdin. Þetta er það sem ræður því að fjármálastofnanir sem eru að sækjast eftir öðrum skyldum stofnunum eru reiðubúnar til þess að greiða yfirleitt 30% og allt upp í 70% meira, ef þær geta keypt ráðandi hlut.

Ég er sammála hæstv. viðskrh. um að áhlaup Íslandsbanka mistókst. Ég er sammála honum um það. Mér þykir það meira að segja stórundarlegt og gerði ekki ráð fyrir því sjálfur að einungis þriðjungur þeirra sem tóku þátt í þessu mundu standa við framsal sitt gagnvart bankanum. Mér finnst það mjög merkilegt að tugir þúsunda eða tveir þriðju af þessum 96 þúsundum sem tóku þátt í kaupunum á bankanum skuli halda hlutnum enn þá. Það getur vel verið að þeir séu jafnframsýnir og hæstv. iðnrh. sem telur að hluturinn muni enn hækka úr genginu 2,70, sem hann mun vera í núna. Það getur vel verið. Ég veit það ekki.

Sömuleiðis var ég þeirrar skoðunar að verðmatið á Fjárfestingarbankanum væri fullhátt 1,40. Það kemur í ljós að menn gátu selt fyrir drjúgum hærri upphæð og enn er um það að ræða að þar eru aðilar sem vilja sælast eftir bankanum. Það sem mér finnst vanta er að fá sýn hæstv. viðskrh. á þróun bankaheimsins á Íslandi. Hann er í deiglu og við sjáum að ákveðin þróun er að byrja að fæðast.

Í sumar kepptu tvær fjármálastofnanir við ríkisstjórnina um að eignast stóran hlut í Fjárfestingarbankanum. Það var annars vegar Búnaðarbankinn og hins vegar sparisjóðirnir í landinu. Ég held reyndar og vísa til fyrri yfirlýsinga minna um Fjárfestingarbankann, að það hefði verið afar farsæll kostur fyrir hagkvæmni í bankaheiminum og fyrir viðskiptalífið almennt þegar horft er til lengri framtíðar að annaðhvort Búnaðarbankinn eða sparisjóðirnir hefðu náð því að kaupa Fjárfestingarbankann á sínum tíma.

Nú blasir það við þegar verið var að selja hlutina í Fjárfestingarbankanum, að a.m.k. annar þessara aðila, þ.e. sparisjóðirnir hafa í gegnum eignarhald sitt á Kaupþingi náð að eignast þarna drjúgan part, þ.e. 9%. Þeir hafa 14% atkvæðaréttar sömuleiðis. Ég tel að þetta sé ágæt þróun. Mér skilst að Búnaðarbankinn hafi líka eignast drjúgan part í Fjárfestingarbankanum.

Nú sé ég það hins vegar fyrir að Íslandsbanki er búinn að heisa flaggið og hann er í rauninni búinn að lýsa því yfir að á næstu árum, þegar sú ríkisstjórn sem nú situr eða aðrar sem kunna að taka við ráðast í að selja meira af ríkisviðskiptabönkunum, þá muni Íslandsbanki ásælast Búnaðarbankann. Ef við gefum okkur það að hæstv. viðskrh. bregðist ekki við neinum þeim varnaðarorðum sem til að mynda hafa komið fram í ræðu minni núna um þessi mál og ef það er ljóst að Íslandsbanka verður illu heilli gefið færi á því að kaupa Búnaðarbankann, þá finnst mér það með ólíkindum ef Búnaðarbankinn á t.d., áður en það verður, að slást um Fjárfestingarbankann og e.t.v. að ná þar yfirtökum. Þá stæðum við uppi með það eftir nokkur ár, kannski bara örfá missiri, að við hefðum saman runna í eina heild Íslandsbanka, Búnaðarbanka og Fjárfestingarbankann. Mér finnst það ekki gott.

Ef sú þróun hefði verið kæfð í fæðingu þá hefði verið ágætt, tel ég, að Fjárfestingarbankinn hefði lent annaðhvort hjá sparisjóðunum eða Búnaðarbanka. Af hverju þessum tveimur stofnunum, herra forseti? Vegna þess að Búnaðarbankinn hefur þróað mjög öfluga verðbréfadeild og samtvinnan hennar og Fjárfestingarbankans hefði haft í för með sér hagkvæmni sem hefði væntanlega leitt til aukins hagræðis, minni vaxtamunar og hefði að öllu leyti orðið betri fyrir íslenskt viðskiptalíf.

Það sama má segja um sparisjóðina. Þeir eiga í sínum fórum Kaupþing sem er öflugt fyrirtæki sem hefur reynst mjög vel. Ég held því fram með sömu rökum og ég taldi upp gagnvart Búnaðarbankanum, ef hann hefði getað gifst Fjárfestingarbankanum, að það hefði verið farsælt og mjög hagkvæmt ef Kaupþing og Fjárfestingarbankinn hefðu runnið saman. Ég held að ef menn horfa til lengri tíma þá séu þetta heppilegri einingar en að sjá þær allar hverja í sínu lagi í dag.

Ef svo fer þá ég get séð fyrir mér eftirfarandi þróun: Íslandsbanki kynni að eignast Búnaðarbanka eða ráðandi hlut þar eftir að Búnaðarbankinn kynni að hafa eignast ráðandi hlut í Fjárfestingarbankanum. Þá erum við komin með mjög stóra banka- og peningastofnun og ég er hræddur við það. Ég segi það hreinskilnislega, herra forseti, að mér hugnast það ekki að þau öfl sem í dag ráða Íslandsbanka nái þessum ofurtökum.

Hvað verður þá um Fjárfestingarbankann? Við sjáum að sparisjóðirnir ráða 14% atkvæða, eiga 9% bankans. Hæstv. viðskrh. hefur lýst þeim vilja sínum að selja afganginn af Fjárfestingarbankanum á næsta ári. Þá velti ég því fyrir mér: Getur það orðið til þess að Búnaðarbankinn haldi áfram þessum slagsmálum? Ég held að svo eigi ekki að vera. Ég spyr þess vegna líka hæstv. viðskrh.: Vegna þess að hann hefur lýst áður a.m.k. andstöðu við þessa þróun eða þróun sem hefur kannski verið skyld þessari og menn hafa stundum verið að ræða hérna og hann skrifaði um hér á fyrri árum sjálfur, mun hann þá ekki í krafti þess valds sem hann hefur sem æðsti yfirmaður hlutafélagsins Búnaðarbankinn hf. beita stöðu sinni í gegnum þá sem hann hefur skipað þar til verka til þess að sjá til þess að Búnaðarbankinn fari ekki í þetta kapphlaup?

Ef hæstv. viðskrh. kemur hingað og segir að það sé ekki á hans valdi og það væri ekki rétt miðað við að hér er um hlutafélag að ræða, að sökum þeirra tengsla sem hann enn hefur við hlutafélagið af því það er í eigu ríkisins þá eigi hann ekki að gera það. Þá vísa ég til þess að hann hefur nú þegar einmitt í þessum bankakapphlaupum gripið inn í gang mála. Hæstv. viðskrh. gaf þeim bönkum sem hann skipaði bankaráð í fyrirmæli um að taka ekki þátt í þessu kennitölukapphlaupi. Með öðrum orðum hann getur ekki vísað til þess að hann hafi ekki og eigi ekki að grípa beint inn í þessa þróun. Hann hefur gert það nú þegar. Þess vegna varpa ég fram þessari spurningu til hans gagnvart Búnaðarbankanum.

Sömuleiðis spyr ég hann hvort hann telji þá ekki, miðað við þá þróun sem virðist farin af stað og ég tel litlar líkur á að hægt sé að snúa algjörlega við þó hægt sé að stemma hana að einhverju leyti, eðlilegt og heppilegra fyrir þróunina að sparisjóðirnir eignuðust stærri hluta af Fjárfestingarbankanum þegar kemur að því að selja þá.

Herra forseti. Ég vil líka rifja upp ræður mínar og hæstv. viðskrh. um þetta mál við 1. umr. Þá spurði ég hæstv. ráðherra með vísan í það sem mér þótti þá og þykir enn, prýðilega reynslu sérstaklega af sölu úr Landsbankanum. Ég sagði þá: Kemur ekki til greina að í staðinn fyrir að selja hluti sem nema 5--8% úr afganginum af Fjárfestingarbankanum, þá haldi menn sig við þá aðferð sem var í upphafi notuð við sölu á fyrstu 49% og freisti þess frekar að selja smærri hluti? Þá var, ef ég man rétt, nafnvirði þeirra hámarkshluta 3 millj. kr. Nú blasir það við að eftirsóknin er meiri og að líkast til sé vel hægt að hækka verðið á hlutunum og jafnframt minnka þá án þess að eiga það á hættu að þeir seljist ekki. Auk þess væri hægt að hafa sérstakan útboðsflokk og þangað rynni þá afgangur þeirra bréfa sem ekki væru seld og leyfa öðrum eða stærri fjármálastofnunum að bjóða í hann.

[19:30]

Þá svaraði hæstv. viðskrh. að í ljósi reynslunnar væri hann reiðubúinn til þess að endurmeta það, þ.e. þá stefnu að selja einungis 5--8% hluta. Vegna þess að ég er enn þeirrar skoðunar sem ég var þá, að fyrst að menn fara með þessum hætti í söluna og taka ekki þann kost sem sumir hafa reifað hér í umræðum að senda hverjum Íslendingi hlutabréf sé þetta ein leiðin til þess að koma virði hlutabréfanna út til fólksins sem er í þjóðfélaginu vegna þess að allir eiga kost á því að kaupa hlutabréf. Þá geta menn auðvitað komið og sagt að ekki eigi allir fjármagn til þess að leggja út. Þá blasir við að bankastofnanirnar hafa allar boðið hagstæð lán og reynslan sýnir að markaðurinn er fyrir hendi þannig að það á enginn að brenna inni með þetta. Það er afskaplega lítil áhætta sem jafnvel hinir fjárminnstu okkar á meðal tækju með þessu. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Kemur enn til greina að breyta þessu með þeim hætti sem ég hef lýst?

Í annan stað langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Eins og hann rifjaði áðan upp í andsvari við hv. þm. Ögmund Jónasson er enn ónýtt heimild til þess að auka hlutafé Búnaðar- og Landsbanka um 20%. Þegar þingið samþykkti gildandi lög um bankana fyrir einum eða tveimur missirum var í því fólgin heimild til að selja nýtt hlutafé sem næmi ígildi 35% aukningar á eigin fé. Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því, ef hann hefur tök á, að þetta verði gert? Ég er ekki að hvetja hann til þess en forvitnilegt væri að vita það vegna þess að það skýrir aðeins línurnar í þessu landslagi. Ef svo er, hvernig mun það verða gert? Mun það verða gert með svipuðu móti og hefur verið gert eða ætlar hann að fara þá leið að selja stærri hluta? Og ef hann ætlar að gera það, hvers vegna?