Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:32:09 (2553)

1998-12-17 19:32:09# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:32]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa ágætu ræðu. Hún var ekki síðri en ræðan sem hv. þm. hélt við 1. umr. málsins heldur betri. Það væri betur ef hv. þm. héldi svona ræður og það margar því að þetta væri góð kennslustund fyrir þá hv. þm. sem telja sig vera sérskipaðir sérfræðingar í bankamálum í þingflokki jafnaðarmanna eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Ágúst Einarsson. Hv. þm. þyrfti að vera með slíka fræðslufyrirlestra á þingflokksfundum hjá þingflokki jafnaðarmanna.

Með þeirri ákvörðun sem er verið að taka og þeirri umræðu sem hér fer fram, og ef Alþingi er tilbúið til þess að samþykkja heimildir ríkisstjórnarinnar, heimildir iðnrh. og sjútvrh. til að selja 51% hlut í Fjárfestingarbankanum er verið að taka lokaskrefið í þessari sölu á kjörtímabilinu. Það er yfirlýst af hálfu ríkisstjórnarinnar að ekki verður um frekari sölur að ræða og --- svo ég svari þá um leið spurningu hv. þm. --- ekki heldur frekari ákvarðanir um að auka hlutafé í Búnaðarbanka og Landsbanka, sem eins og hv. þm. segir, við höfum heimildir til samkvæmt lögunum. Það verður ekki meira gert í því á þessu kjörtímabili.

En af því hv. þm. spyr: Ef eitthvað gerist að afloknum kosningum, sem enginn veit hvað verður og ekki er víst að ég verði í neinni betri stöðu til þess en bara hv. þm. að hafa áhrif á það hvað skuli gert, þá tel ég vel koma til greina að afloknum kosningum að menn fari út í að auka hlutafé í bæði Búnaðarbanka og Landsbanka vegna þess að sem betur fer hafa báðir þessir bankar stækkað. Búnaðarbankinn er að stækka alveg ótrúlega og þessi aukning á hlutafé, þessi áhugi sem er í kringum bankann mun held ég líka leiða til þess að hann vaxi enn frekar á komandi ári. Þar af leiðandi býst ég við að hann muni þurfa á auknu og nýju eigin fé að halda til að geta haldið í við vöxtinn.

Því miður gefst mér sennilega ekki tími í þessu stutta andsvari að svara spurningum hv. þm. sem snúa að því hvaða leiðir við eigum að fara til þess að tryggja dreifðu eignaraðildina til framtíðar en kannski gefst mér tími og tækifæri til að svara því í andsvari á eftir.