Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:34:27 (2554)

1998-12-17 19:34:27# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sem á eftir að selja úr Fjárfestingarbankanum eigi að gera með svipuðu móti og í fyrri sölu, þ.e. ég tel sjálfsagt að menn endurmeti þá verðið miðað við markaðinn. En ég tel líka ekki ólíklegt að menn ættu að fara þá leið að minnka hlutina og setja inn útboðsflokk þannig að það sem ekki seldist, ef eitthvað seldist ekki --- sem ég tel reyndar ekki verða --- færi þá í útboðsflokk til þess að tryggja að allt seldist.

Sömuleiðis, ef menn færu í það að nýta þau 20% sem á eftir í hinum bönkunum tel ég að það eigi að fara sömu leiðir sem hafa verið farnar. Mér þætti vænt um ef hæstv. viðskrh. lýsti skoðunum sínum á þessum aðferðum. Sömuleiðis spyr ég hann um hinn framvirka eftirmarkað vegna þess að hann er eins og fleinn í holdi mínu. Hann kemur í veg fyrir eða hann ógnar því, þó að Íslandsbanka hafi ekki tekist þetta þá gæti sá banki eigi að síður lært af reynslunni vegna þess að hann var líka að stíga fyrstu skrefin að þessu og hann gæti auðvitað náð til sín miklu hærri hlut með því að hækka bara verðið og bjóða betur.

Og það er það sem ég vil ekki. Þá er spurningin: Er hæstv. viðskrh. reiðubúinn til þess að íhuga að banna slíkan framvirkan eftirmarkað með lögum? Svo ítreka ég þessa spurningu varðandi söluna á Fjárfestingarbankanum. Er hæstv. ráðherra reiðubúinn til þess að standa við það sem hann sagði við 1. umr. sem var að vísu ekki meira en það að hann sagðist reiðubúinn til þess að íhuga það að selja ekki 5--8% hluti heldur miklu smærri hluti?