Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:41:10 (2557)

1998-12-17 19:41:10# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:41]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan að held ég að ég hafi svarað allfelstum þeim spurningum sem hv. þm. spurði um vegna þess að það voru samhljóða spurningar sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson óskaði eftir að ég svaraði. En það er ekkert að því að fara yfir stöðu málsins og þá um leið kannski að svara einhverjum af þeim spurningum sem hv. þm. varpaði fram.

Það hafa líka komið fram, í andsvörum mínum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, svör við nokkrum af þeim spurningum sem hv. þm. spurði um fyrr við umræðuna.

Aðalatriði málsins er þetta sem ég hef rakið í nokkrum orðum fyrr, m.a. þegar ég svaraði hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að verið er að fara nákvæmlega eftir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin mótaði 28. ágúst á þessu ári, þ.e. selja aukahlutafé í Búnaðarbanka Íslands hf. og Landsbanka Íslands hf. um 15%. Gefa starfsmönnum þessara fyrirtækja kost á því að kaupa á hagstæðu gengi ákveðinn hluta eða í kringum 5% af þessum 15%, eða einn þriðja af því sem þarna var til sölu með aukningu hlutafjár.

Nú eru starfsmenn beggja þessara banka að njóta ávaxtanna af aðgerð ríkisstjórnarinnar. Ég heyrði það í fréttum, af því ég var að hlusta á það hér rétt áðan, að enn er gengið í Búnaðarbankanum að hækka. Sennilega er hver starfsmaður bæði Landsbanka og Búnaðarbanka að hafa hreinan ábata af þessu á milli 400 og 450 þúsund kr. ef hann er að selja sinn hlut á þessum tíma.

Við allan undirbúning að málinu, frá upphafi að formbreytingin kom hér inn, hefur verið haft náið samstarf og samráð við starfsfólk beggja þessara fyrirtækja og starfsfólk Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og þá fyrrverandi sjóði sem settir voru inn í Fjárfestingarbankann, mjög náið samstarf var haft við alla þessa hópa um hvernig að þessu skyldi staðið.

Þess vegna segi ég: Þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér 28. ágúst um hvernig að þessu skyldi staðið og hvað skyldi selt hafa öll gengið eftir.

Þá var líka sú yfirlýsing gefin að ekki yrði leitað eftir frekari heimildum um aukið hlutafé í Búnaðarbanka og Landsbanka en þessi 15%. En það var líka skýrt tekið fram að ekki ætti að selja á kjörtímabilinu eignarhlut í þessum fyrirtækjum í samræmi við þá stefnumótun sem kom fram í frv. sem var upphaflega lagt fyrir um formbreytingu þessara banka. En við sögðum þá líka að við ætluðum að leita eftir því í ljósi reynslunnar af 49% sölunni að selja þessi 51% í Fjárfestingarbankanum í upphafi næsta árs. Nú kann vel að vera að hægt sé að snúa út úr því og segja sem svo að ekki sé um dreift eignarhald að ræða.

[19:45]

Ég hef hlustað á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, herra forseti, í þessari umræðu allri saman og ítrekað talar hún um einkavinavæðingu án þess að hafa nokkrar forsendur til að tala á þann hátt. Ég verð að spyrja hv. þm.: Hvað á hv. þm. við með því þegar það liggur fyrir eftir þessa sölu að þeir sem skráðu sig fyrir hlut í Búnaðarbankanum voru tæplega 93 þúsund manns? (JóhS: Hvað eru þeir margir núna?) Ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir eru margir núna en það var ekki nema einn þriðji af þessum hópi sem var tilbúinn til að selja þeim aðilum sem voru að bjóða upp á kennitölukaupin. Það var bara einn þriðji úr þessum hópi sem var tilbúinn til að binda sig fyrir fram í því að selja á tilteknu fyrir fram ákveðnu gengi. Tveir þriðju eiga þessi bréf í dag eða í kringum 60 þúsund manns. Ætlar hv. þm. að halda því fram að um einkavinavæðingu sé að ræða þegar 60 þúsund manns eiga hlutabréf eins og í Búnaðarbanka Íslands? Hver hlutur er að nafnverði rétt tæpar 4.000 kr. og þeir sem gengu harðast fram í kennitölusöfnuninni höfðu ekki meiri árangur af sínu starfi en það að þeir eiga núna í kringum 1,5% í bankanum. Getur hv. þm. haldið því fram að ríkisstjórnin hafi skipulega verið að móta reglur sem hafi átt að ganga í þá veru að vera með einkavinavæðingu? Nei, herra forseti. Þetta eru klisjur. Þetta er áróður og þetta er lýðskrum af verstu gerð og hv. þm. á ekki að temja sér slíka hluti.

Eigendur Landsbankans í dag eru a.m.k. milli 7 og 8 þúsund. Það voru 12.200 manns sem skráðu sig fyrir eignarhlut í Landsbankanum. Ætlar hv. þm. að halda því fram að um einkavinavæðingu hafi verið að ræða þegar einstaki stærsti aðilinn sem á þann hlut núna er um 2%, sennilega innan við 2%? 8.000 manns eiga hlut í þessu fyrirtæki sem flestir eru að nafnvirði í kringum 55 þús. kr. Hvernig er hægt að halda því fram með einhverjum rökum að ríkisstjórnin hafi með þessum aðgerðum og þeim reglum sem hún mótaði verið að koma á einkavinavæðingu? Það er af og frá.

Sama gildir með Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þar sem milli 6 og 7 þúsund manns eiga í þeim banka í dag. Þar hafa eignarhlutir hins vegar stækkað, það skal fúslega viðurkennt. Stærsti eigandinn þar er sennilega með eignarhlut í kringum 9% og sjóður sem tengist viðkomandi fyrirtæki er með eignarhlut í kringum 5%. En það er útilokað að halda því fram að þarna hafi verið settar upp reglur sem hafi átt að verða til þess að koma á einkavinavæðingu. Hv. þm. verður að skýra það út hvað hún á við með því að um einkavinavæðingu sé að ræða. Það er ekki nóg bara að standa í ræðustóli og stappa niður fótunum og segja: Það má ekki gera þetta svona og ekki svona, heldur einhvern veginn öðruvísi. Hv. þm. verður þá að hafa tillögur um það hvernig á að gera þetta öðruvísi og það er lykilatriði. Hv. þm. verður að svara því.

Við 1. umr. þessa máls, þegar verið var að koma á fót Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þá fór hv. þm. mikinn í umræðunni ásamt hv. þm. Ágústi Einarssyni og hélt því fram, eins og reyndar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt fram við þessa umræðu og að meginhluta til öll stjórnarandstaðan, að það sem væri að gerast væri að menn tækju rangar ákvarðanir. Hv. þm. hélt því fram að menn væru að taka rangar ákvarðanir með því að útbúa Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Hvað er að koma í ljós? Sem betur fer hlustaði meiri hlutinn á Alþingi, ríkisstjórnarflokkarnir, ekki á málflutning stjórnarandstöðunnar á sínum tíma vegna þess að það var svartsýnisraus og því miður flest allt saman byggt á grundvallarmisskilningi. Það sem hefur komið í ljós er að það sem ríkisstjórnin ákvað að gera var rétt. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er þjóðinni 12--13 milljarða kr. virði. Það var vilji stjórnarandstöðunnar að henda þessu inn í ríkisviðskiptabankana og segja: Þið getið haft þetta, þetta er lítils virði og kannski einskis virði.

Komandi kynslóðir munu njóta þess að við munum greiða niður skuldir ríkisins með þessum fjármunum sem eru á bilinu 12--13 milljarðar kr. Þetta hefði orðið lítils virði ef menn hefðu sett þetta inn í starfandi ríkisviðskiptabanka.

Í þeirri umræðu héldu menn því líka fram að ríkisstjórnin væri að koma á einkavinavæðingu, allt væri þetta sett upp til þess. Helmingaskipti milli Framsfl. og Sjálfstfl. Hvað af þessu hefur gengið eftir? Ekkert. Í þessu fyrirtæki er um dreifða eignaraðild að ræða. Stjórnarandstaðan hélt því líka fram þá að verið væri að búa til bankastjórastarf fyrir uppgjafarstjórnmálamenn, ráðherra sem væru að hætta störfum. Hefur þetta gengið eftir? Nei. Ráðinn var forstjóri Fjárfestingarbankans kornungur maður sem menn treystu til þess að reka það fyrirtæki vel og það hefur hann gert. Ekkert af því sem stjórnarandstaðan hélt fram við umræðuna um stofnun Fjárfestingarbankans eða um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna hefur gengið eftir. Og af hverju ætti ríkisstjórnin nú að vera að hlusta á tillögur frá stjórnarandstöðunni sem þannig hefur komið fram í öllu málinu? Það er ekki trúverðugt að reyna að halda slíku fram vegna þess að það er ekki um neitt annað að ræða af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessu máli en skemmdarverk, að reyna að koma í veg fyrir að menn geti gert skynsamlega hluti á fjármagnsmarkaði.

Hafa menn þá verið að gera skynsamlega hluti þar? Já, ég fullyrði að svo sé vegna þess að með tilkomu Fjárfestingarbankans hefur samkeppni á markaðnum stóraukist. Vaxtamunur hefur lækkað sem skilar sér í lægri vöxtum til fólks og fyrirtækja í landinu. Á fyrsta hálfa árinu sem Landsbankinn og Búnaðarbankinn eru reknir sem hlutafélög hefur vaxtamunur lækkað í Búnaðarbankanum um hálft prósentustig og sennilega munu báðir þessir bankar þegar þeir verða gerðir upp í árslok 1998 sýna sína bestu afkomu í allri sögunni. Er ekki nokkuð merkilegt að það skuli geta gerst að á sama tíma og vaxtamunurinn lækkar í báðum bönkunum skuli þeir geta sýnt sinn mesta hagnað, sína bestu afkomu í sögu viðkomandi banka? Jú, það er merkilegt. En það er staðfesting á því hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera skynsamlega hluti á því sviði á þessu kjörtímabili.

Nú vonast ég til, hv. þm. og herra forseti, að ég hafi svarað öllum þeim spurningum sem hv. þm. bar fram við 1. umr. þessa máls.