Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 20:13:34 (2559)

1998-12-17 20:13:34# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[20:13]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr: Hvað liggur á? Það sem liggur á er að gert er ráð fyrir því að það verðmæti sem menn fá fyrir Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sé hluti af sölutekjum í fjárlögum ársins 1999. Með andvirði hans ætlum við að greiða niður skuldir, létta skuldaklafa af komandi kynslóðum sem fyrri ríkisstjórn lagði á og þar af leiðandi ætlum við að lækka vexti og í raun og veru nota fjármuni til þess að taka á á sviði menntamála, velferðarmála og á mörgum öðrum góðum sviðum.

Í öðru lagi spurði hv. þm.: Hvað með hlutahafaskrána í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins? Hlutahafaskráin breytist dag frá degi. Ég sé ekki tilgang í því að leggja hana fram á Alþingi. Mér finnst það vera mjög sérkennileg krafa. Ég get ekki að því gert. Það hefur komið fram að stærsti hluthafinn í Fjárfestingarbankanum er með 9% hlut. Markmið ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild hafa gengið eftir eins og ég lýsti áðan.

Þá spyr hv. þm.: Rekst það ekki á við fyrri yfirlýsingar um að kennitölusöfnunin gangi þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar? Það gerir það ekki. Ég lýsti því yfir að kennitölusöfnunin gengur þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar en sem betur fer mistókst kennitölusöfnunin eins og ég fór yfir áðan og þar af leiðandi hefur stefna ríkisstjórnarinnar gengið eftir og þau markmið sem menn settu sér.

Hefur bankaeftirlitið svarað? Nei, bankaeftirlitið hefur ekki svarað. Bankaeftirlitið er sjálfstæð stofnun sem framkvæmdarvaldið á ekki að hafa bein afskipti af og við eigum að virða það og þar af leiðandi ætla ég ekki að hafa afskipti af því að bankaeftirlitið fari að hraða störfum sínum í þessum efnum.

Í fjórða lagi spyr hv. þm. hvort ekki sé rétt að setja reglur um hámarkshluti og setja það inn í frv. Ég tel að svo sé ekki. Ég tel að sú umræða sé ekki nógu þroskuð og tel að ekki þurfi að setja slíkar takmarkanir inn í lög, það sé hægt að setja slíkar takmarkanir, ef menn ætla sér, inn í útboðsskilmála.

Síðan spyr hv. þm.: Hverjir græða á þessu öllu saman? Það er einfaldlega þannig að þeir sem kaupa bréfin og selja þau aftur eru að græða og það er stór hluti þjóðarinnar.